140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[14:07]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tala í sjálfu sér ekki sérstaklega fyrir því að einhver ákveðin leið sé farin í þessu nema mér finnst að fyrirkomulagið eigi að vera á hreinu. Mér finnst svolítið sérstakt þegar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra segir: Ég get bara ekkert komið að þessu, ég get ekkert gert í þessu máli. Fjármálaráðuneytið og hv. fjárlaganefnd segja bara: Þetta er ekkert eðlilegt, hérna er bara eitthvað sem fer fram hjá öllu og meðan allir eru að spara þrefaldast þessi stofnun þrátt fyrir að bankakerfið minnki alveg gríðarlega.

Stóra einstaka málið er það sem hv. þm. Eygló Harðardóttir bendir á, að það hefur verið kallað eftir því að við tökum ákvörðun um það hvers konar fjármálaumhverfi við viljum sjá. Fjármálaeftirlitið er lykilþáttur í því og það varðar allt frá rekstrarumhverfi fyrirtækjanna, hvort við sjáum aðskilnað milli viðskiptabanka og fjárfestingarbanka, hvert rekstrarumhverfi sparisjóðanna er, hvernig við ætlum að hafa innstæðutryggingarnar o.s.frv. Ekkert af þessu hefur verið gert. Það eina sem er algerlega öruggt er að meðan menn eru með stefnuleysi í þessum málaflokki eru þeir að bjóða hættunni heim. Þetta er kannski bara mjög lítill þáttur í því.

Við munum umræðuna um innstæðutryggingarnar, hér átti að keyra í gegn tilskipun sem er stórhættuleg fyrir okkur Íslendinga, það voru haldnar hástemmdar ræður um mikilvægi þess að byggja upp í sjóðnum. Þannig töluðu hv. þingmenn stjórnarliðsins, og við hv. þm. Eygló Harðardóttir munum það mætavel. Þegar hentar vegna þess að gjöldin hjá fjármálafyrirtækjunum eru svo há núna lækka hins vegar greiðslurnar inn í tryggingarsjóðinn. Það kom á daginn að það var eins og skiptimynt í því öllu saman.

Stóra einstaka málið er að það er fullkomið stefnuleysi í þessu og mjög mikil hætta á allra handa mistökum þegar stefnan er engin.