140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[14:09]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Það er ljóst að sennilega var fjármálaeftirliti ábótavant fyrir hið mikla hrun sem varð í október 2008. Margir hafa haldið því fram að það hafi verið vegna þess að Fjármálaeftirlitið hafi verið fáliðað, það hafi verið fjársvelt sem hafi verið afleiðingar af mikilli afreglun sem hafi átt sér stað árin á undan. Ég er ekki sammála þessari söguskoðun. Reglur um fjármálamarkaði hafa verið hertar stöðugt undanfarin ár, m.a.s. mjög mörg undanfarin ár. Við höfum orðið aðilar að alþjóðlegum samningum og það eitt og sér leiddi yfir fjármálamarkaðinn mun fleiri lög og reglugerðir en nokkurn tímann giltu áður.

Þá spyr maður: Hvað er hæft í því að dregið hafi verið úr eftirliti með fjármálamörkuðum? Ég er þeirrar skoðunar að vandamálið sem kom upp í sambandi við íslenskan fjármálamarkað og eftirlit með honum hafi mun fremur verið vegna þess að ramminn um eftirlit á markaðnum hafi verið illa hannaðar. Það komu upp vandamál í sambandi við það og þá sérstaklega í sambandi við eftirlit með kerfisáhættu, þ.e. hver og ein fjármálastofnun sem var skoðuð af Fjármálaeftirlitinu gat verið í lagi en aftur á móti varð áhættan samanlagt allt of mikil fyrir íslenskt hagkerfi. Ég tel að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta með því að bankaeftirlit, eftirlit með fjármálastofnunum, hefði verið á einni hendi. Það voru hlutverkaskipti við þetta eftirlit, í fyrsta lagi að Fjármálaeftirlitið átti að fylgjast með því að allar kennitölur og efnahagsreikningar bankastofnananna væru í lagi, þ.e. Fjármálaeftirlitið átti að fylgjast með hverju og einu tré í skóginum, en Seðlabankinn átti að fylgjast með samanlagðri kerfisáhættu og fjármálalegum stöðugleika, þ.e. Seðlabankinn átti að fylgjast með skóginum. Seðlabankinn sá ekki úr fjarlægð hvort trén væru sýkt hvert og eitt heldur sá bara yfir skóginn í heild sinni og þar af leiðandi fór kerfislæga áhættan fram hjá Seðlabankanum. Ég hef verið þeirrar skoðunar í mörg ár, og skrifaði meðal annars skýrslu um það vorið 2006, að það ætti að færa Fjármálaeftirlitið inn í Seðlabanka Íslands til að auka eftirlit með fjármálastöðugleika í landinu og fylgjast betur með fjármálalegri áhættu. Sú leið hefur verið valin að hafa þetta hvort í sinni stofnuninni sem leiðir til þess að sá veikleiki sem er í eftirliti með fjármálastofnunum á Íslandi er enn fyrir hendi.

Hvað um það, í þessu frumvarpi eru lagðar til gríðarmiklar hækkanir á fjárframlögum til Fjármálaeftirlitsins. Framan af virtust menn og konur halda að það væri til að styrkja eftirlitið en það hefur komið í ljós að jafnt stjórnarliðar sem stjórnarandstæðingar hafa farið að spyrja sig spurninga um hvort rétt sé að láta þetta vaxa svona án þess að búið sé að taka á hinum eiginlegu göllum.

Ég ætla ekki að setja á langa ræðu um þetta en í þessu frumvarpi er lögum breytt þannig að framlög til Fjármálaeftirlitsins aukast um rúmar 500 millj. kr. og verða um 2 þús. milljónir. Enn fremur er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið vaxi mjög að umfangi. Núna vinna 117 manns í Fjármálaeftirlitinu og ef við tökum flóknasta fjármálakerfi heims til samanburðar, sem er í Bandaríkjunum, og vörpum þessari tölu yfir á þau væru í kringum 117 þús. manns að vinna hjá fjármálaeftirliti Bandaríkjanna. Það er svo langt frá því sem það er í raun og veru. Hér er verið að biðja um fjárveitingar til að ráða fólk sem jafngildir því að starfsmönnum við þetta ímyndaða bandaríska fjármálaeftirlit væri fjölgað úr 117 þús. í 150 þús. starfsmenn.

Út af hverju er þetta gert? Jú, m.a. vegna þess að fyrr á þessu ári fékk Fjármálaeftirlitið til sín óháðan sérfræðing, Pierre-Yves Thoraval, sem er franskur sérfræðingur um fjármálaeftirlit, ég held að hann hafi meira að segja verið varaforstjóri franska fjármálaeftirlitsins, og hann gaf Fjármálaeftirlitinu falleinkunn á nokkrum sviðum. Og Fjármálaeftirlitið segir: Við verðum að fara út í umbætur til að koma til móts við gagnrýnina og laga það sem Frakkinn segir að sé ekki í lagi.

Í fyrsta lagi finnst mér að Fjármálaeftirlitið eigi að fara inn í Seðlabankann og að þetta allt eigi að skoða í samhengi við það en í öðru lagi finnst mér frekar ókrítískt að láta einn sérfræðing taka út starfsemi Fjármálaeftirlitsins og á grunni þess koma með gríðarlega dýrt plan um að gera það sem franski sérfræðingurinn leggur til. Hvað um það, gert er ráð fyrir að starfsmönnum verði fjölgað úr 117 upp í kringum 150.

Fyrir um ári sagði forstjóri Fjármálaeftirlitsins á fundi efnahags- og skattanefndar, eða hvort það var með viðskiptanefnd, að einhver hagkvæmasti fjöldi starfsmanna í eftirlitinu væri 80. Samkvæmt hans eigin orðum eru allt of margir starfsmenn núna og hann ætlar að bæta við. Auðvitað þarf tímabundið aukinn fjölda starfsmanna. Það er áætlað að í kringum 17 starfsmenn vinni nú við rannsóknir sem tengjast hruninu og auðvitað erum við ekki að tala um að við viljum skera þá í burtu. Auðvitað þarf að klára rannsóknir á hruninu, afleiðingum þess og koma þeim málum þar sem menn hafa orðið uppvísir að einhverju saknæmu til dómstóla og annað slíkt. Ef menn hafa gert eitthvað ólöglegt viljum við ekki að þeir sleppi vegna þess að fjárveitingar til eftirlitsins vanti. En þá eru bara eftir fjölmargir aðrir starfsmenn sem eiga að fara í einhver umbótaverkefni og þau eiga að vera á næstu árum og það er byggt á áliti þessa eina manns, þessa Frakka, þannig að það er ekkert sem heitir eins og er kallað upp á ensku „second opinion“ heldur á að fara út í þetta frekar ókrítískt.

Þá er eitt sem vekur mikla athygli mína, það að hér er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið fái svokallaðan IPA-styrk sem er aðlögunarstyrkur frá Evrópusambandinu. Hann er á næsta ári upp á 380 milljónir, minnir mig, og heildarstyrkurinn á fjórum árum er tæplega 800 milljónir. Fyrir þessum styrk er engin grein gerð í fjárhagsáætluninni sjálfri þannig að ef styrkurinn fæst, sem er ekkert ólíklegt að verði, mun ráðstöfunarfé Fjármálaeftirlitsins aukast úr um 2 milljörðum upp í tæplega 2,4 milljarða og það finnst mér ansi vel í lagt. Mér finnst ekki vera gerð fullnægjandi grein fyrir hvað gerist ef styrkurinn fæst. Þarf þá eftirlitið ef til vill ekki jafnmikla peninga og það fær í gegnum fjárlög, í gegnum álagningu á fjármálafyrirtækin? Þetta finnst mér spurning sem Fjármálaeftirlitið hefur ekki getað svarað nægjanlega vel en til að sóa ekki tímanum vil ég taka þetta saman í það að mér finnst ljóst að það sem þarf raunverulega að taka á á Íslandi í eftirlitsmálum er að endurhanna rammann um eftirlitskerfið, ekki að auka fjárframlögin inn í óbreytt kerfi. Það gerir ekki neitt.

Í öðru lagi finnst mér að fái Fjármálaeftirlitið þessa IPA-styrki verði það að gera betur grein fyrir því hvernig þeim verði varið í tengslum við þá fjárveitingu sem það er með nú þegar.

Þrátt fyrir að hér hafi fjármálastofnanir farið á höfuðið mega menn, í þriðja lagi, ekki bruðla með fjármagn með því að dæla fjármunum ókrítískt inn í Fjármálaeftirlitið.