140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

virðisaukaskattur.

317. mál
[14:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að hafa nokkur orð um uppgjörsmálið á virðisaukaskattinum í tengslum við dóminn um fjármögnunarleigusamningana. Það er rétt að ýmis álitaefni voru uppi en meginsjónarmiðið er að það sé mikilvægt að leiðrétta þessi uppgjör með þeim hætti að það sé gert eins einfalt og kostur er og jafnskjótt og hægt er. Þeir sem hafa ranglega verið krafðir um leigugreiðslur þar sem í raun var um lán að ræða samkvæmt nýgengnum dómi þurfa að fá sínar leiðréttingar strax.

Fjármögnunarleigurnar hafa innheimt virðisaukaskatt af þriðja aðila og skilað þeim skatti í ríkissjóð. Nú, þegar breytingar verða á því með hvaða hætti virðisaukaskattinn átti að innheimta, er eðlilegt að leiðrétta það eins og hér er gert ráð fyrir án milligöngu og beint við þann litla hóp aðila sem í hlut átti.

Nefndin hefur skoðað þau sjónarmið sem fram hafa komið um að öðruvísi eigi með þetta að fara og sett voru fram, m.a. á fundi nefndarinnar, af þeirra hálfu og sömuleiðis í skriflegum rökstuðningi og leitað eftir áliti sérfræðinga í skattarétti um þessi álitaefni sem sannarlega eru býsna flókin eins og kom fram hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Niðurstaða okkar eftir ítarlegt hagsmunamat er að almannahagsmunir kalli á að þessi leið verði farin og við teljum skýrt fordæmi fyrir því að hún verði farin eftir að dómur er genginn um að samningarnir hafi ekki verið fjármögnunarleigusamningar heldur lánasamningar.