140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

368. mál
[14:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar í því máli sem snýr að skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Stærsta atriðið hefur verið nokkuð umdeilt, þátttaka lífeyrissjóðanna í kostnaði við sérstakar vaxtabætur sem gripið hefur verið til að greiða skuldugum íbúðareigendum á þessu ári og verður gert á hinu næsta vegna þeirra miklu erfiðleika sem hafa gengið yfir þann hóp í kjölfar hrunsins.

Sérstöku vaxtabæturnar nema 6 þús. milljónum á þessu ári og öðrum 6 þús. milljónum á því næsta ári, samanlagt 12 milljörðum, og hefur verið gert ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir greiði þann hluta þess kostnaðar sem nemur 2,8 milljörðum kr., bankakerfið greiði rétt liðlega 4 milljarða kr. með álagi á sérstakan bankaskatt sem við höfum áður afgreitt í þinginu og ríkissjóður axli sjálfur afganginn. Það er álit okkar að þessar aðgerðir séu mjög til þess fallnar að efla og bæta eignasafn bæði lífeyrissjóðanna og fjármálafyrirtækjanna og að heildarhagsmunirnir af því að bregðast við við þessar óvenjulegu aðstæður séu ríkir. Þess vegna teljum við forsvaranlegt að lífeyrissjóðirnir taki þátt í þessum kostnaði en ég undirstrika að hér er um tímabundna aðgerð að ræða þar sem þeir eru skattlagðir vegna þessara sérstöku vaxtabóta. Þær eru sömuleiðis tímabundnar. Í nefndaráliti er vísað til bréfs sem formenn stjórnarflokkanna hafa sent forustumönnum aðila vinnumarkaðarins og fylgir það nefndaráliti okkar. Að öðru leyti er um að ræða ýmis smærri atriði í löggjöfinni sem verið er að gera breytingar á og ég tel óþarft að reifa héðan úr ræðustólnum og vísa heldur til nefndarálits okkar á þskj. 570.