140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

368. mál
[14:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Markmið þess máls sem við höfum til umfjöllunar er ekki að jafna lífeyrisréttindin heldur að fjármagna sérstakar vaxtabætur. Fyrir því standa mjög sterk rök, m.a. sem lúta að því að á móti þeim skatti sem á lífeyrissjóðina leggst hefur verið gripið til mjög víðtækra aðgerða sem eru til þess fallnar að styrkja og bæta eignasafn sjóðanna þegar yfir standa í landinu mestu greiðsluerfiðleikar fyrr og síðar. Lífeyrissjóðirnir hafa sannarlega stundað víðtæka, óábyrga útlánastarfsemi, m.a. í lánsveðaútgáfu þar sem hætta er á að sjóðirnir verði fyrir miklu tjóni ef ekki eru opinber úrræði eins og sérstakar vaxtabætur, umboðsmaður skuldara og önnur slík.

Þátttaka sjóðanna í þessum sérstöku vaxtabótum tel ég að sé hæfileg út frá þeim bata sem eignasafn þeirra verður klárlega fyrir. 2,8 milljarðar eru liðlega 0,1% af eignasafninu sem sannarlega mun styrkjast við þetta, að því síðan ógleymdu að af þessum 12 þús. milljónum, 12 milljörðum, sem sjóðirnir borga fara 2,8 milljarðar að langmestu leyti beint til sjóðfélaganna í lífeyrissjóðunum sjálfum og heildaráhrifin fyrir sjóðfélagana í lífeyrissjóðunum sjálfum eru þess vegna algerlega ótvírætt mjög jákvæð.