140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

368. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða skattlagningu á börnin okkar, það er ekkert öðruvísi, og ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér þetta mál svo þeir viti í það minnsta hvað þeir eru að samþykkja.

Út af andsvari hv. þm. Helga Hjörvars langar mig að segja, þótt það tengist þessu máli ekki beint, að það er orðið frekar kómískt að mér sýnist sem það verði ansi mikið um inngöngubeiðnir frá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar í Framsóknarflokkinn. Ég veit ekki hvort það hefur eitthvað að gera með það að hann varð 95 ára í gær. Samfylkingarmenn detta hér inn hver af öðrum og eru orðnir miðjumenn. Hv. þm. Helgi Hjörvar fylgir í fótspor hv. þm. Magnúsar Orra Schrams og það verður eitthvað að gera hjá hv. þingmanni og formanni Framsóknarflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, að taka á móti þessum nýju miðjumönnum sem eru búnir að útvatna það að vera vinstri menn. Þetta er útúrdúr.

Virðulegi forseti. Það sem er að gerast er einfaldlega það að hér er verið að taka fjármuni framtíðarinnar og nota í nútíðinni. Það er ekki bara verið að gera það með lífeyrissjóðina heldur er þetta sama aðferðafræði og hefur verið notuð við fjársýsluskattinn á hagnað fjármálafyrirtækjanna og sömuleiðis við sérstaka álagningu tekjuskatts á álfyrirtæki. Mér sýnist að það séu um 9 milljarðar kr. sem ríkisstjórnin er búin að sækja sér með þessum hætti og allt miðar þetta við það að þessi tekjuöflun hættir árið 2013, þ.e. þegar ríkisstjórnin fer frá í síðasta lagi.

Hér er verið að brjóta prinsipp sem hefur verið til staðar frá því að lífeyrissjóðakerfið var sett á laggirnar í þeirri mynd sem við þekkjum það núna. Það er verið að setja eignarskatta á lífeyrissjóðina. Er það á alla lífeyrissjóði? Nei, virðulegi forseti, það er í raun bara á almennu lífeyrissjóðina. Þótt þeir séu settir á alla lífeyrissjóðina hafa opinberu sjóðirnir þá sérstöðu að vera með lögbundin réttindi þannig að sjóðfélagar í opinberu sjóðunum munu fá lífeyrisréttindi sín en þeir sem greiða fyrir það eru þeir sem eiga lífeyrisréttindi í almennu lífeyrissjóðunum. (Gripið fram í.)

Vegna þess að hér hefur verið talað um að þetta hafi verið samkomulag á milli stjórnvalda og lífeyrissjóðanna vil ég lesa umsagnir þessara aðila. Ég ætla að vitna fyrst í umsögn Landssambands lífeyrissjóða. Þar er þessari staðhæfingu mótmælt harðlega þar sem lífeyrissjóðirnir hafi aldrei og muni aldrei, eins og segir orðrétt, með leyfi forseta, „semja um álagningu eignarskatta á lífeyrissjóðina“. Í viljayfirlýsingunni var notað orðalagið „að leita leiða“ en sú leit hefur ekki skilað neinu. Skattlagning mun koma misjafnlega niður á sjóðfélögum eftir því hvort þeir eru á almennum markaði eða hjá ríkinu. Lífeyrissjóðir fara með fé almennings og sætta sig ekki við hótun ríkisvalds um skattlagningu.

Samtök atvinnulífsins segja að áformin um skattlagningu séu unnin í „fullkominni ósátt við lífeyrissjóðina og aðila almenna vinnumarkaðarins. […] Slík skattlagning á almennu lífeyrissjóðina sé í ósamræmi við þá almennu stefnumörkun sem mótuð hafi verið, að samræma lífeyrisréttindi milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins.“

Þetta eru orð þessara aðila sem í barnslegri einlægni sinni, kannski best að orða það svo, sömdu við þessa ríkisstjórn. Til að koma til móts við þessi svik ríkisstjórnarinnar komu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra með yfirlýsingu sem var lesin upp í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Þar segir að til standi að jafna áunnin lífeyrisréttindi almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra ganga í bréfinu skrefinu lengra í yfirlýsingagleði sinni og lýsa yfir eindregnum vilja til að hraða vinnu við jöfnun áunninna lífeyrisréttinda almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Spurningin er: Hver á að borga fyrir það? Er hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar með svör við því? Er einhver í þessum sal með svör við því hver eigi að borga fyrir þessar ætlanir forustumanna ríkisstjórnarinnar um að jafna lífeyrisréttindin upp á við? Þetta er svo fullkomlega óábyrgt, sérstaklega í ljósi þess að núna vantar 51 milljarð kr. í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og 392 milljarða í B-deildina. Saman eru þetta nokkurn veginn fjárlög íslenska ríkisins. Til að bæta gráu ofan á svart fresta menn þessum vanda með því að framlengja vikmörkin. Það að hækka vikmörkin er ekkert annað en að fresta vandanum.

Hvaða lífeyrissjóðir skyldu eiga erfitt með að uppfylla lögin, þ.e. vera innan vikmarkanna samkvæmt lögunum? Það eru þrír lífeyrissjóðir og tveir þeirra eru opinberir. Almennu lífeyrissjóðirnir eru ekki í vanda með þessi vikmörk. Ef menn hækka vikmörkin taka menn ekki á þeim vanda að það vantar fjármuni inn í sjóðina eða að ávöxtunin er ekki nógu góð. Ef menn ætla að fylgja þessum vikmörkum samkvæmt lögunum þurfa þeir annaðhvort að greiða meira inn í sjóðina eða skerða réttindi sjóðfélaga. Síðan eru deildar meiningar um það hvort hægt sé að skerða réttindi sjóðfélaga í opinberu sjóðunum vegna þess að það er í lögum og margir telja að það sé lögvarið samkvæmt stjórnarskránni þar sem segir að eignarrétturinn sé friðhelgur. Það tengist því máli sem við ræddum hér áðan, að sú eign er ekki notuð þegar verið er að reikna svokallaðan auðlindaskatt. Einhverra hluta vegna eru það bara eignir sem eru fyrir utan lífeyrissjóðina og er alveg ótrúlegt að hv. stjórnarþingmenn og hæstv. ráðherrar sem eiga miklar eignir þar skuli ekki setja þær inn í þann skattstofn sem gerði það væntanlega að verkum að þeir þyrftu að greiða þennan auðlindaskatt.

Virðulegi forseti. Hér er eingöngu um frestun að ræða, það er verið að setja skatta á börnin okkar með þessu frumvarpi sem lætur kannski ekki mikið yfir sér. Svo er auðvitað verið að svíkja aðila vinnumarkaðarins en það er kannski engin sérstök frétt. Það að brjóta þetta prinsipp með því að setja eignarskatt á lífeyrissjóðina hefur ekki verið gert áður og hefur verið þverpólitísk samstaða um það fram til þessa meðal allra stjórnmálaflokka landsmanna að ganga ekki þannig fram. Á tyllidögum hafa menn ekki vílað fyrir sér að fara yfir það hvers konar lán það hafi verið að setja þetta lífeyriskerfi af stað og er erfitt að greina hvaða stjórnmálaöfl reyna að eigna sér mest þetta ágæta lífeyrissjóðakerfi. Það er svo sannarlega ekki gallalaust en það mun ekki minnka gallana, þvert á móti auka þá, að ganga enn frekar fram í því að gera stöðu lífeyrisþega ójafnari eins og gert er með þessu frumvarpi.

Ég ætla ekki að lengja málið og segi að lokum: Við styðjum ekki þetta mál, við munum greiða atkvæði gegn því og ég hvet menn til að kynna sér það og hvaða prinsipp eru brotin þarna.