140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

239. mál
[14:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég velti fyrir mér hvenær stjórnarliðar og hæstv. ríkisstjórn ætla að fara að bera ábyrgð á því sem þeir gera. Þeir eru endalaust að vísa í einhverjar fyrri ríkisstjórnir. Þeir bera enga ábyrgð. Þeir virðast ekki gera neitt sem þeir bera ábyrgð á.

Það er tiltölulega nýkomin upp umræða um að það þurfi að hækka iðgjaldið umtalsvert. Upp í 19,5% þyrfti að hækka iðgjaldið og þar af er hlutur ríkisins 15,5% af launum allra ríkisstarfsmanna. Það vantar 4% af launum allra ríkisstarfsmanna, það eru 4 milljarðar. Mér er alveg sama þó að einhverjar fyrri ríkisstjórnir hafi verið uppteknar af því að bæta stöðu B-deildarinnar. Nú er hvorugt gert, hvorki er bætt staða B-deildarinnar né A-deildarinnar, og þetta er greinileg skuldbinding á ríkissjóð.

Það er sama hvort við veljum að taka árlega 4 prósentustig og hækka iðgjaldið upp í 19,5% eða taka bara alla skuldbindinguna sem er 51 milljarður. Það vantar stórar upphæðir inn í fjárlagafrumvarpið sem hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, lagði til um daginn og samþykkti.