140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[15:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig alveg á því sem hv. þingmaður er að tala um. Eins og ég sagði í mínu stutta andsvari ætla ég ekki að fara í efnislega umræðu um það hvort þetta sé betra eða verra fyrir stöðu ríkissjóðs. Ég er ekkert að deila um það. Það gæti samt verið betra að færa þetta inn í skattalega hvata. Þeir sem eru að vinna ákveðin verkefni fyrir þessi fyrirtæki fengju þá skattafslætti þannig að við þyrftum ekki að fara með þetta í gegnum ríkissjóð. Það er algerlega klár skoðun mín að ef við ætlum að hafa þetta svona áfram höfum við ekki yfirsýn yfir útgjöld ríkissjóðs. Það er ekki hægt vegna þess að við getum aldrei annað en giskað á hvað verður væntanlega hugsanlega gert af einhverjum verkefnum og við munum ekki vita hvað það verður í raun þannig að það þurfi að vera svigrúm á þessum fjárlagalið í fjárlögum.

Svo getum við tekið umræðu um hvort skynsamlegra sé að fara í þessa vegferð í fleiri atvinnuvegum. Aðalatriðið sem ég er að kalla eftir hjá hv. þingmanni er hvort þetta hafi verið skoðað nógu vel, til að mynda í þessu verkefni sem ég nefndi í andsvari mínu og hv. þingmaður kom reyndar aðeins inn á í ræðu sinni og gagnvart verkefninu Allir vinna. Þá er bara helmingurinn af virðisaukaskattinum greiddur til baka af þeirri vinnu sem unnin er á staðnum. Er ekki að mati hv. þingmanns hægt að fara þá leið að sá innlendi kostnaður sem hv. þingmaður er að benda á fari í gegnum skattkerfið, þ.e. með skattafslætti og af skattalegum hvötum, til að hafa ekki þennan opna tékka í fjárlögunum? Við sjáum á tölunum á undanförnum árum að þetta er algerlega út í bláinn. Það getur ekki gengið að hv. fjárlaganefnd eigi ekki að fylgjast með framkvæmd fjárlaga heldur bara lesa lokafjárlög. Það finnst mér algerlega óþolandi og ólíðandi.