140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[15:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að lengja þessa umræðu mikið en ég ætla að bregðast aðeins við því sem hv. þm. Magnús Orri Schram sagði í seinna andsvarinu við mig áðan. Hann fjallaði um réttlætingu á því að vera með óvænt útgjöld í ríkissjóði eins og í þessu tilfelli og þá er réttlætingin sú að það koma inn tekjur á móti.

Ég á sæti í hv. fjárlaganefnd og við fylgjumst með framkvæmd fjárlaga, hvernig skatttekjur heimtast, hvernig útgjöldin þróast og þar fram eftir götunum. Eigum við þá að hafa einn liðinn í fjárlögunum óvæntar skatttekjur á móti þessum lið? Ég er að velta fyrir mér heildaryfirsýninni. Ég deili ekki við hv. þingmann um það að skattalegir hvatar eins og í þessari atvinnugrein munu hugsanlega skila ríkissjóði auknum tekjum, en fyrirkomulagið við þessa endurgreiðslu og hvað það varðar fyrir hv. fjárlaganefnd að fylgjast með framkvæmd fjárlaga er algerlega galið. Að mínu viti er starf nefndarinnar áfram, eins og það hefur verið, að lesa lokafjárlög tveimur árum eftir að búið er að eyða peningunum. Ég velti fyrir mér þeirri stöðu sem hv. þingmenn fjárlaganefndar eru í. Ég verð að segja það alveg hreint út að ef þetta heldur svona áfram, hvort heldur er þetta, mörkuðu tekjurnar eða annað, held ég að hv. þingmenn eigi að íhuga hvort þeir uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til þeirra um að fylgjast með framkvæmd fjárlaga. Eins og þetta er í dag lesum við bara lokafjárlögin. Þau eru ekki í neinu samræmi við fjárlögin. Ég held að við þurfum þá að taka upp breyttar hefðir og ræða fjárlögin í styttri tíma og gefa okkur meiri tíma til að ræða lokafjárlög vegna þess að þar koma fram mjög miklar breytingar á þeim fjárlögum sem samþykkt eru á hverjum tíma.

Ég ætla einungis að lesa tvær stuttar tilvitnanir í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Það má hins vegar vera orðið ljóst að þetta fyrirkomulag felur í sér alvarlega brotalöm í stjórn ríkisfjármála. Engin takmörkun er í lögunum á nýmyndun skuldbindinga með tilliti til fjárheimildar fjárlaga heldur ráðast þær af ákvörðunum framleiðenda um verkefni sem geta verið afar áhættusöm og fjöldi þeirra því lítt fyrirsjáanlegur.“

Síðan ætla ég að fá að vitna í annan stað í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Með þessu móti hefur Alþingi verið sett í þá aðstöðu að samþykkja fjárheimildir eftir á þegar búið er að efna til skuldbindinga í stað þess að ákvarða þær fyrir fram sem útgjaldaramma fjárlaga í samræmi við afkomumarkmið ríkisfjármálastefnunnar. Er því umhugsunarefni hvernig fjárveitingavaldi þingsins er í raun farið á þessu sviði og hvort það liggur í reynd annars staðar.“

Hæstv. iðnaðarráðherra sagði þegar hún mælti fyrir þessu frumvarpi að umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins væri pólitísk umsögn, skrifuð af fulltrúum sem væru á móti kvikmyndagerð. Ef hæstv. ráðherrar koma með svona fullyrðingar, sem ég geri strax alvarlegar athugasemdir við, hvernig eigum við þá lesa aðrar umsagnir? Þess vegna vitna ég sérstaklega í tvennt í þessari umsögn sem ég tek heils hugar undir og síðan ætla ég að enda á að lesa eina litla fullyrðingu sem kemur fram í samantekt fjárlaganefndar. Ég minni hv. þingmenn á að þegar við fengum lokafjárlög fyrir árið 2009 held ég að öllum hv. þingmönnum sem sitja í fjárlaganefnd hafi verið verulega brugðið. Þar myndaðist þverpólitísk samstaða um fagleg vinnubrögð, þ.e. að vera ekki með einhverja pólitíska umræðu heldur eingöngu um fagleg vinnubrögð. Það er í fyrsta skipti sem hv. fjárlaganefnd skilar skýrslu um lokafjárlög ríkisreiknings sem ég veit um. Ég held að það hafi aldrei verið gert áður. Því miður gafst ekki tími til að taka skýrsluna til efnislegrar umræðu heldur var hún sett inn sem þingskjal á septemberþinginu vegna stjórnarráðsmálsins sem var allt í upplausn þá eins og við munum. Þingskjalið er til, skýrsla upp á margar blaðsíður, undirritað af öllum fulltrúum í fjárlaganefnd. Eitt af fjölmörgum atriðum sem þar er bent á er þetta sem ég ætla að láta vera lokaorð mín hér. Nú vitna ég orðrétt í skýrsluna, virðulegi forseti:

„Vinnubrögð við framkvæmd fjárlaga, þar með talið uppgjör og reikningsskil, hafa verið ámælisverð árum saman og gerir fjárlaganefnd kröfur um breytingar. Taka verður ákveðin skref í þá átt að bæta verklag þannig að tryggt verði að helstu annmarkar við framkvæmdina verði sniðnir af.“

Virðulegi forseti. Samþykkt á þessu frumvarpi með þessum hætti gengur í þveröfuga átt að mínu mati.