140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[16:26]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það hefur verið dálítið kostulegt að fylgjast með umræðunni um þetta mál vegna þess að hér kemur hver stjórnarliðinn á fætur öðrum og segir: Sjáið dæmið sem við erum hér með um að við getum beitt hvötum til að skapa störf og koma atvinnulífinu í gang. Öll hin málin sem stjórnarflokkarnir hafa verið með á dagskránni hafa meira eða minna verið í hina áttina og falið í sér nýjar álögur á atvinnulífið.

Þetta mál er dæmi um rétta aðgerð, þ.e. að beita hvötum til að skapa umsvif, ný störf og að auka tekjur ríkissjóðs, alveg eins og hv. þm. Magnús Orri Schram sagði rétt í þessu. Réttilega hefur hins vegar verið bent á að útfærslan er mjög gagnrýniverð og ég get tekið undir alla þá gagnrýni sem hér kom fram, t.d. hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, en ég ætla engu að síður að styðja málið vegna þess að hér er verið að beita hvötum til að skapa störf og auka umsvif. Ég vonast til þess að þessar athugasemdir [Kliður í þingsal.] verði samt sem áður teknar til greina. (Gripið fram í: Meiri jöfnuð …)