140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[16:35]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þakka þann almenna stuðning sem hefur orðið í efnahags- og viðskiptanefnd við frumvarp um svæðisbundna flutningsjöfnun og tel að breytingartillögur nefndarinnar séu til bóta.

Ég get þó ekki stutt þá breytingartillögu sem fram kemur frá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur vegna þess að hún gerir ráð fyrir því að felld verði undir hæsta styrkflokk í þessu kerfi sveitarfélög í Norðausturkjördæmi en það vantar efnislegan rökstuðning fyrir því. Ég hef unnið þetta frumvarp á forsendum efnislegrar greiningar og viljað að raunveruleg greining lægi að baki því flutningsjöfnunarkerfi sem við værum að koma á. Ég tel ekki sæmandi að bæta á óskilgreindum forsendum einhverjum öðrum sveitarfélögum inn í hæsta styrkflokk.

Grundvallarforsenda flutningsjöfnunarkerfis er sú að verið sé að bæta flutningskostnað sem sé umfram það sem vænta má í ljósi þeirrar fjarlægðar sem er frá markaði. Þannig er það einungis í hinum tilgreindu sveitarfélögum á Vestfjörðum (Forseti hringir.) sem eru í hæsta styrkflokki.

Ég legg til að þingið haldi sig við frumvarpið í því formi og mun greiða atkvæði gegn breytingu á því. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)