140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[16:37]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að koma hingað til að hæla hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir þetta frumvarp. Loksins er komið frumvarp um flutningsjöfnun en sú ræða sem hann flutti var frekar slæm. [Kliður í þingsal.]

Virðulegi forseti. Ég spyr: Hver er munurinn á því að flutningsjafna í 450 kílómetra vestur á firði og 450 kílómetra austur á land? Eruð þið ekki jafnaðarmenn? (BJJ: Jæja.) Er ekki sanngjarnt að jafna á þann hátt, sama hvort svæðið er á Austurlandi eða Vestfjörðum? (BJJ: Rétt.) Hvers konar kjaftæði er þetta? [Hlátur í þingsal.]

Virðulegi forseti. Ég kom hingað upp til að hæla þeirri tillögu sem hér kemur fram (BJJ: Rétt.) þó að hún sé aðeins skref í áttina. Það getur vel verið að við tökum meiri umræðu um þetta á eftir en að mínu mati hefði þurft að ræða þetta betur vegna þess að það er enginn munur á flutningskostnaði hvað þetta varðar. (Gripið fram í.) Það er jafndýrt að flytja á norðausturhornið og 450 kílómetra vestur á firði. Ég er ekki að gagnrýna það, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, en ef þetta er eingöngu fyrir Vestfirði á bara að kalla þetta flutningsjöfnuð fyrir Vestfirði, kalla það sínu réttu nafni. (Forseti hringir.) En við sjáum til á eftir, við kannski ræðum þetta betur. (Gripið fram í.)