140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[16:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um svæðisbundna flutningsjöfnun þar sem leitast er við að jafna samkeppnisstöðu framleiðslu- og útflutningsgreina á landsbyggðinni sem eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfnum. Tilraunir hafa áður verið gerðar af fyrri stjórnvöldum til að koma á flutningsjöfnun en hafa því miður ekki tekist. Því er mjög brýnt að við náum samstöðu núna í að hrinda þessu mikilvæga máli í framkvæmd og jafna búsetuskilyrði í landinu.

Ég tel mjög brýnt að í framhaldinu verði unnið að því að jafna líka flutningskostnað gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum á landsbyggðinni. Það er mikið réttlætismál, en þar er mikill ójöfnuður í gangi og það verk verður að vinna í framhaldinu.