140. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

381. mál
[17:01]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þetta mál er angi af fjórum skýrslum sem skrifaðar hafa verið um hrunið og uppbygginguna í kjölfar þess. Það var beðið um tvær þessara skýrslna af Alþingi sjálfu. Önnur er skýrsla rannsóknarnefndarinnar, hin er skýrsla þingmannanefndar sem Alþingi sjálft skipaði. Hinar tvær skýrslurnar voru skrifaðar af nefndum sem forsætisráðuneytið og hæstv. forsætisráðherra óskuðu eftir að yrðu gerðar.

Niðurstaða þessa máls gengur þvert gegn því sem segir í öllum þessum skýrslum. Að því leytinu til er þetta athyglisvert vegna þess að hér er verið að skorast undan því, tel ég, þó að hæstv. forsætisráðherra lofi að gefa þinginu skýrslu í september, að vera með gagnsæja og opna stjórnsýslu á Íslandi í kjölfar hrunsins. Það er ekki góður bragur á því.