140. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[17:13]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka þann skilning þingheims að lög þessi komi til endurskoðunar næsta haust. Í efnahags- og viðskiptanefnd komu fram þau sjónarmið að landsvæði á norðausturhorni byggju við meiri flutningskostnað og ættu þess vegna að falla undir svokallaðan 20% flokk. Það er á þeim grundvelli sem ég studdi breytingartillögu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur og tel að vafann eigi að túlka viðkomandi landsvæðum í vil þangað til lögin koma til endurskoðunar næsta haust.

Ég ítreka að skilningur minn er sá að að baki þurfi að liggja efnislegar ástæður fyrir því að viðkomandi landsvæði eigi að falla undir 20% flokkinn eins og Vestfirðir gera samkvæmt frumvarpi ráðherra. (Gripið fram í.)