140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:14]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessu tækifæri til að gefa Alþingi skýrslu um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég vil byrja á því að víkja nokkrum orðum að þeim breytingum sem orðið hafa og fyrirhugaðar eru í Stjórnarráðinu. Síðari hluta árs 2010 voru gerðar breytingar á skipan ráðherra og ráðuneyta innan Stjórnarráðsins. Ráðherrum var þá fækkað um tvo og gefin fyrirheit um frekari sameiningu ráðuneyta í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. Þær breytingar sem nú er ráðist í ættu því ekki að koma neinum á óvart en þær eru síðasti stóri áfanginn í þessari umfangsmestu skipulagsbreytingu í sögu Stjórnarráðsins.

Breytingarnar sem nú er unnið að eru stofnun nýs atvinnuvegaráðuneytis sem lengi hefur verið í bígerð. Uppistaðan í því verða verkefni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis. Samhliða er gert ráð fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Á vettvangi sérstakrar ráðherranefndar sem nú hefur verið skipuð er unnið að þessu mikilvæga verkefni. Með þessum breytingum verða til öflugar stjórnsýslueiningar sem annars vegar sinna atvinnumálum og hins vegar auðlindamálum. Unnið hefur verið að undirbúningi þessara breytinga undanfarna mánuði og eru margir kostir því fylgjandi að ráðast í þær.

Það er til dæmis talið skynsamlegt að skipan ráðuneyta sé óháð atvinnugreinum og að eitt og sama ráðuneyti þjóni öllum atvinnugreinum en ekki bara sumum eins og er í dag. Fólk í stórum greinum eins og verslun, þjónustu og ferðaþjónustu hefur meðal annars kvartað undan misvægi í skipan ráðuneyta að þessu leyti. Þessi breyting mun því efla og styrkja þjónustu stjórnvalda við atvinnulífið. Sé litið til auðlindamála er fyrirkomulag þeirra í dag breytilegt eftir flokkum auðlinda og takmarkað samræmi í verkaskiptum milli ráðuneyta á sviði auðlindamála sem akkur væri í að bæta.

Jafnframt verður á vettvangi ráðherranefndarinnar og sérfræðinga hennar lagt faglegt mat á kosti og galla þess að gera breytingar á efnahags- og viðskiptaráðuneytinu en nokkur greining hefur þegar farið fram í þessum efnum. Þegar ráðherranefndin hefur lokið störfum sínum mun ég leggja fyrir þingið þingsályktunartillögu um þær breytingar sem lagðar verða til á skipan ráðuneyta, allt í samræmi við nýsamþykkt lög um Stjórnarráð Íslands. Með þessari breytingu hefur því yfirlýsta markmiði ríkisstjórnarflokkanna verið náð að fækka ráðherrum úr tólf í níu og þegar fyrirhuguðu fæðingarorlofi iðnaðarráðherra lýkur eru áform um að ganga skrefinu lengra og að ráðherrum fækki í átta. Þá mun ráðherrum hafa fækkað um fjóra, þ.e. um þriðjung, með tilheyrandi sparnaði og sveigjanleika og auknu hagræði fyrir ríkissjóð til lengri tíma litið.

Fjárhagslegt og faglegt hagræði fækkunar af sameiningu ráðuneyta til framtíðar er ótvírætt eins og reynslan við stofnun velferðarráðuneytis og innanríkisráðuneytis sýnir glöggt þótt ekki sé langt um liðið. Við þá sameiningu fækkaði ráðuneytisstjórum í Stjórnarráði Íslands um tvo og skrifstofustjórum um þrettán. Þá hefur heildarstarfsmannafjöldi lækkað sem og fjárhagsrammi sameinaðra ráðuneyta sem er tugmilljónum króna lægri á fjárlögum 2012 en á árinu 2010. Þannig er um verulega raunlækkun að ræða.

Þá er það sérstakt ánægjuefni að með breytingunum á ríkisstjórninni urðu þau sögulegu tímamót í jafnréttismálum að í fyrsta sinn í sögunni eru fleiri konur í ríkisstjórn á Íslandi en karlar, fimm konur en fjórir karlar. Í fyrsta skipti í sögunni gegnir kona embætti fjármálaráðherra. Mér skilst að hvergi á Vesturlöndum sé staða kvenna við ríkisstjórnarborðið eins góð og á Íslandi eftir þessa breytingu.

Hæstv. forseti. Ofangreindar stjórnkerfisbreytingar eru enn eitt dæmið um hvernig ríkisstjórnin nær metnaðarfullum markmiðum sínum einu af öðru þrátt fyrir erfiðar aðstæður og sífelldan sönglanda um aðgerðaleysi og yfirvofandi endalok ríkisstjórnarsamstarfsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Þrátt fyrir að víða sé enn við erfiðleika að glíma, ekki síst hjá láglaunafólki og þeim sem eru skuldsettastir, er flestum sem betur fer að verða ljós sá góði árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum enda eykst nú bjartsýni í þjóðfélaginu jafnt og þétt. Staðreyndin er sú að á undraskömmum tíma hefur einu umfangsmesta efnahagshruni sögunnar verið snúið þannig að nú vex hagur íslensku þjóðarinnar hraðar en flestra annarra þjóða. Böndum hefur verið komið á ríkisfjármálin. Störfum er tekið að fjölga umtalsvert og lífskjörin batna, ekki síst hjá þeim sem lökust höfðu kjörin fyrir. Jöfnuður hefur því aukist í samfélaginu ólíkt því sem víðast hvar gerist þegar kreppir að.

Nýjustu tölur Hagstofunnar sýna að á fyrstu níu mánuðum síðasta árs var landsframleiðsla 3,7% meiri en á sama tíma árið á undan, og á milli ársfjórðunga óx hún um 4,8%. Til samanburðar er hagvöxtur þeirra 32 ríkja sem aðild eiga að OECD fyrstu níu mánuði ársins um 2% að meðaltali.

Samkvæmt nýjustu tölum Seðlabankans var fjölgun ársverka um 5 þús. á liðnu tólf mánaða tímabili. Kaupmáttur lægstu launa hefur hækkað síðustu tólf mánuðina um 8–9% að teknu tilliti til eingreiðslna og almennur kaupmáttur um 3,5%. Í samræmi við fyrirheit ríkisstjórnarinnar munu bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækka um tæplega 12% á innan við ári, auk þess sem 1.300 millj. kr. jólauppbót hefur verið greidd til atvinnulausra í tvö ár. Það er nokkuð sem sjálfstæðismenn höfnuðu ávallt í ríkisstjórnartíð sinni á tímum góðæris.

Þá hefur skattkerfinu verið breytt með þeim hætti að árið 2010 greiddu 80 þús. manns lægra hlutfall af tekjum sínum í skatt en á árinu 2008 og ríkið tekur nú til sín lægra hlutfall þjóðartekna en fyrir hrun þannig að meira verður eftir hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Þá er það sérstaklega ánægjulegt að staðfest er í gögnum Seðlabankans að skuldir heimilanna hafa lækkað að raungildi um 10% og talsvert hefur dregið úr vanskilum heimilanna. Á liðnu ári hefur fasteignaverð síðan hækkað um tæp 10% og eignastaðan þannig batnað. Þetta rímar ágætlega við um 200 milljarða kr. lækkun á skuldum heimila. Þetta eru umtalsvert hærri fjárhæðir en reiknað var með í upphafi og umtalsvert hærri fjárhæðir en gert var ráð fyrir þegar lánin voru færð yfir í hina nýju banka. Munar þar tugum milljarða sem sjálfsagt og eðlilegt er að fjármálastofnanirnar beri.

Þá má minna á að greiðslubyrði fasteignalána hefur lækkað umtalsvert með því að vaxtabætur hafa verið meira en tvöfaldaðar á skömmum tíma en þriðjungur vaxtakostnaðar heimila er nú greiddur úr ríkissjóði.

Hæstv. forseti. Þótt mesta efnahagsháskanum hafi nú verið bægt frá og lífskjarasóknin sé komin á góðan skrið bíða ríkisstjórnarinnar og okkar alþingismanna sannarlega ærin verkefni. Umbætur og ábyrg ríkisfjármála- og efnahagsstefna verða áfram eitt meginstefið í verkefnum stjórnarinnar. Nú tekur einnig við tími uppbyggingar. Áður en kjörtímabilinu lýkur þurfum við að sjá enn frekari hagvöxt og fjölgun starfa þannig að atvinnuleysi verði að hámarki 4–5% árið 2013 eins og gert er ráð fyrir í sameiginlegu markmiði ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins.

Það er í rauninni óskiljanlegt og óþolandi að aðilar vinnumarkaðarins haldi því í síbylju fram að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við sinn hluta kjarasamninga. (Gripið fram í: Og ASÍ.) Staðreyndirnar tala einfaldlega sínu máli í þessum efnum. Af þeim 44 atriðum sem tiltekin eru á vefsvæði ríkisstjórnarinnar hafa 24 þegar verið uppfyllt og 19 eru í góðum farvegi. Sú spurning er áleitin hvaða tilgangi og hvaða hagsmunum það þjónar hjá Samtökum atvinnulífsins að halda uppi linnulausum áróðri og rangfærslum gegn ríkisstjórninni og verkum hennar. Engin ríkisstjórn hefur glímt við viðlíka erfiðleika og náð viðlíka árangri og það stöðugt með Samtök atvinnulífsins í grímulausri stjórnarandstöðu. (Gripið fram í: Og ASÍ.) Eitt er víst, ekki þjónar þetta hagsmunum þjóðarinnar. Ríkisstjórnin mun halda lífskjarasókninni áfram og við ætlum að gera enn betur. Spár benda til þess að á næstu fjórum árum muni atvinnuvegafjárfesting aukast um 50–60%, þ.e. 70–75 milljarða kr. Það er þó full ástæða til að ætla að enn meira sé í pípunum því að bærilega horfir nú með ýmis stórverkefni. Full ástæða er til hóflegrar bjartsýni um byggingu álvers í Helguvík og sömuleiðis uppbyggingu fyrir norðan. Hafist hefur verið við handa við hönnun virkjana og þrír álitlegir kostir um kaupendur orkunnar hafa komið fram, m.a. um tvær kísilmálmverksmiðjur. Gagnaver í Reykjanesbæ tekur til starfa á næstunni og benda athuganir til að gagnaversiðnaður gæti verið mjög vænlegur kostur í íslensku atvinnulífi. Áframhaldandi uppgangur í ferðaþjónustu samfara fjölgun ferðamanna og góðar vonir um enn aukinn afla á Íslandsmiðum hafa gefið fyrirheit um áframhaldandi uppgang í okkar helstu útflutningsgreinum. Þá er ríkisstjórnin nú að meta hvort vel heppnuð endurreisn bankakerfisins geti skapað okkur svigrúm til enn frekari uppbyggingar og atvinnusköpunar. Verði niðurstaðan sú er mikilvægt að nýta til fjárfestinga arðinn sem eign okkar í bankakerfinu gefur. Þær fjárfestingar ættu að beinast að arðbærum verkefnum í samgöngum, aðgerðum í húsnæðismálum, fjármögnun verka, sóknaráætlunum landshluta og til að styðja við rannsóknir, nýsköpun og vaxtargreinar atvinnulífsins. Til að örva vöxt til lengri tíma er einnig brýnt að fjárfesta í mannauði og menntun.

Þá er fyrirhugað að ráðast í viðamiklar aðgerðir í þágu ungmenna án atvinnu og aðgerðir í þágu langtímaatvinnulausra og það markmið sett að langtímaatvinnulausum verði boðin allt að 1.500 störf hjá fyrirtækjum og sveitarfélögum í sérstöku átaki. Endurreisn Fæðingarorlofssjóðs verður einnig hafin. Á næstu mánuðum verður lögð fram tímasett áætlun um lengingu fæðingarorlofs í tólf mánuði og hækkun hámarksgreiðslna í áföngum. Þá verður hraðað vinnu við framkvæmd nýrrar húsnæðisstefnu sem tryggi öryggi og fjölbreyttari valkosti í húsnæðismálum og byggir á því að unnið verði að viðunandi lausn á vanda þeirra sem ekki hafa getað nýtt sér úrræði í greiðsluvanda vegna lánsveða.

Einnig er markmið ríkisstjórnarinnar að lokið verði við endurskoðun laga um almannatryggingar og frumvarp lagt fram um það á haustþingi árið 2012. Þá bíður okkar hér á þingi það mikilvæga verkefni að ljúka umfjöllun um frumvarpið um breytingar á stjórnarskránni. Ríkisstjórnin styður þau áform að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá eftir umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um frumvarp stjórnlagaráðs.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég nefna þau mikilvægu verkefni sem fram undan eru í auðlindamálum þjóðarinnar. Við reiknum með að sameign þjóðarinnar á auðlindum verði tryggð með breytingum á stjórnarskránni í samræmi við tillögu stjórnlagaráðs þar um. Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða verður lagt fram á næstu vikum og stefnt er að afgreiðslu þess á yfirstandandi þingi. Mikilvægt er að ný lög tryggi varanlegt eignarhald og fullt forræði þjóðarinnar á auðlindum sjávar, jafnræði við úthlutun veiðiheimilda og að þjóðin fái sanngjarnan arð af eign sinni.

Þá verður innleidd nýskipan í orku- og auðlindamálum. Nýframlagðri orkustefnu verður fylgt eftir þannig að við nýtingu orkuauðlinda verði borin virðing fyrir umhverfi, náttúru og sérkennum landsins og að þjóðin njóti arðs af sameiginlegum orkuauðlindum. Mikilvægt er að ekki verði hróflað við eignarhaldi ríkisins á orkufyrirtækjum. Rammaáætlun um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma verðum við að afgreiða á Alþingi ásamt nýrri náttúruverndaráætlun. Síðast en ekki síst er markmið okkar að stofnaður verði auðlindasjóður sem fari með ráðstöfun arðs af auðlindum í eigum þjóðarinnar.

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn kemur til þings með endurnýjuðum og auknum krafti staðráðin í að ljúka þeim mikilvægu uppbyggingar- og endurbótaverkefnum sem hér hefur verið lýst með sama hætti og hún hefur lokið að mestu björgunarleiðangrinum eftir hrunið mikla.