140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:28]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa skýrslu og óska um leið nýjum ráðherrum velfarnaðar í störfum sínum. Það sem situr þó eftir að lokinni þessari skýrslu hæstv. forsætisráðherra er stóra spurningin: Hvað þýða þessar stöðugu mannabreytingar í ríkisstjórninni? Við höfum fengið skýrslu um að þetta sé í samræmi við upphaflega áætlun um fækkun og einföldun stjórnsýslunnar og að ávallt hafi staðið til að fækka ráðherrum en það sem við höfum séð á kjörtímabilinu er stöðugur hringlandaháttur, t.d. þrír ráðherrar í velferðarráðuneytinu, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er nú kominn aftur í það ráðuneyti eftir að hafa haft viðkomu í fjármálaráðuneytinu. Nú höfum við fengið nýjan hæstv. fjármálaráðherra sem sjálfur sagðist í upphafi einungis ætla að verma sætið í nokkra mánuði og því er ósvarað af hæstv. forsætisráðherra hvort við fáum enn einn ráðherrann, þriðja ráðherrann, í fjármálaráðuneytið á þessu kjörtímabili. Ég gæti haldið áfram, gæti til dæmis nefnt það að hæstv. utanríkisráðherra sagði að það væri líka kominn tími á hæstv. forsætisráðherra sjálfan, það væri kominn tími á að hún viki og að skipt yrði um formann.

Það sem fólk er að biðja um í tengslum við breytingar sem eru jafnumfangsmiklar og þær sem hér er verið að kynna til sögunnar er að því fylgi einhver skýr stefna, að menn sjái að það séu einhver tengsl á milli stefnunnar sem er verið að hrinda í framkvæmd og þeirra breytinga sem verða. En við höfum í raun og veru ekki séð neitt annað en hringlandahátt. Og hér hef ég ekki einu sinni hafið umræðu um það sem er svo augljóst og auðvitað aldrei nefnt eða viðurkennt af forustu ríkisstjórnarinnar, það að Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fór að sjálfsögðu úr þeim stóli vegna þess að hann sýndi ekki samstarfsvilja í Evrópusambandsviðræðunum. Það er meginástæðan. Þetta vita allir þó að forusta ríkisstjórnarinnar vilji ekki viðurkenna það. Það sem stendur þó upp á nýjan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er að svara því hvernig hann hefur lofað forsætisráðherra að haga sér öðruvísi í viðræðunum um aðild að Evrópusambandinu. Ætlar nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til dæmis að ganga frá samningum á sviði sjávarútvegsmála við Evrópusambandið, handsala og skrifa undir þann kafla og styðja hann þegar hann kemur heim eða ætlar hann að halda í hugmyndina um að geta staðið gegn samningum sem hann sjálfur stendur að? Þetta stendur upp á fyrrverandi fjármálaráðherra og nýjan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að svara og það er sjálfsagt að gera þá kröfu til forsætisráðherra að þetta sé skýrt. Það vita allir að Evrópusambandsmálin eru ein rót þeirra breytinga sem hér hafa orðið og fólkið í landinu kallar eftir svörum um það hvaða breytingar verða þá á viðræðuferlinu í framhaldinu. Þetta eru sjálfsagðar og eðlilegar spurningar sem ekki hefur verið svarað.

Það er engin ástæða til að gera lítið úr þeim sparnaði sem getur orðið við fækkun ráðuneyta. En það er hins vegar ástæða til að staldra við og spyrja hvort einstök ráðuneyti séu ef til vill ekki orðin of stór, eins og velferðarráðuneytið. Er í raun og veru frábær reynsla af því að hafa búið til þetta stórt ráðuneyti með jafnstóran hluta fjárlaganna undir? Er það í raun og veru svo? Ég leyfi mér að draga það í efa. Ég leyfi mér líka að draga í efa að það sé í raun og veru skynsamlegt að þjappa valdinu jafnmikið saman og hér hefur verið gert, að ég tali ekki um þegar einn og sami ráðherrann fer jafnvel með allt að fimm ráðuneyti eins og stefnir í að hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra — og jafnvel líka iðnaðarráðherra — geri. Er það hugmyndin? Er það heppilegt til að geta kallað menn til ábyrgðar vegna þeirra starfa sem þeir hafa tekið að sér? Eru ekki líkur til þess að með meiri valddreifingu, með því að dreifa verkefnunum betur, sé verkefnunum betur sinnt og ábyrgðin skýrari? Þetta hlýtur að þurfa að taka með í þessari umræðu.

Að lokum um þetta sérstaklega ætla ég að benda á að þrjú ár eru síðan ríkisstjórnin tók til starfa og enn er ekki ljóst hvernig þessum málum verður háttað það sem eftir lifir af kjörtímabilinu, þ.e. þetta eina ár. Á þremur árum er ekki enn búið að ganga frá því hvernig þessum málum verður fyrir komið í Stjórnarráðinu.

Hér hafa síðan komið til umræðu og forsætisráðherra rekur í skýrslu sinni nokkur mál sem ástæða er til að staldra við. Í fyrsta lagi er hinn vaxandi kaupmáttur. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni ef kaupmáttur mælist vaxandi en við þurfum líka að gæta að okkur og spyrja um grundvöll þess. Eins og fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra hafa eingreiðslurnar mjög mikil áhrif og úttekt séreignarsparnaðar, lækkun skulda og kjarasamningarnir að öðru leyti frá síðasta vori. (Utanrrh.: 5 þús. ný störf.) 5 þús. ný störf, kallar fram í hæstv. utanríkisráðherra sem vill losna við formanninn sinn [Hlátur í þingsal.] og ég verð að segja að það er algjört lágmark, hæstv. utanríkisráðherra. Það er lágmark fyrir okkur í þessari stöðu eftir að hafa tapað 20 þús. störfum að vinna til baka á þeim árum sem eru fram undan allt að 20 þús. ný störf, (Gripið fram í.) það er verkefnið. Ef ríkisstjórnin vill bera á borð og láta fella einhverja dóma um verk sín í atvinnusköpun liggur dómur atvinnulífsins fyrir. Hann er sundurliðaður lið fyrir lið, svikin loforð uppi um alla veggi. Forsætisráðherra vill fyrst og fremst tala um Samtök atvinnulífsins, minnist ekki á að það er nákvæmlega sami tónn frá ASÍ og einstökum stéttarfélögum. Þau eru meira að segja byrjuð að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina og vilja losna við hana sem allra fyrst, stéttarfélögin vilja losna við ríkisstjórnina vegna svikinna loforða. Ef áform ríkisstjórnarinnar úr stöðugleikasáttmálanum frá miðju sumri 2009 hefðu gengið eftir hefðu fjárfestingar á síðasta ári verið um 150 milljörðum meiri en raunin varð. Það er hinn kaldi veruleiki sem við hljótum að þurfa að ræða um.

En stend ég hér og segi að ekki þokist neitt í rétta átt á neinu sviði? Ég stend ekki hér til að flytja þann boðskap. Ég er bara að segja að það er hægt að gera svo miklu betur og þetta gengur of hægt. Þess vegna kvarta Samtök atvinnulífsins og þau færa rök fyrir máli sínu. Þau leggja það fram sundurliðað hvað ekki hefur gengið eftir og ríkisstjórnin verður að kannast við samningana sem hún hefur gert. Hún verður að kannast við stöðugleikasáttmálann og hvern einasta lið í honum og áætlun um verklegar framkvæmdir sem fylgdi því skjali. Það þýðir ekki að koma hingað og segja menn vera með rakalausan áróður gegn ríkisstjórninni. Þetta er ekki þannig.

Breytingar á skattkerfinu hafa að sjálfsögðu verið til tjóns og ekki til framfara. Hæstv. forsætisráðherra segir að svo og svo hátt hlutfall skattgreiðenda greiði núna hlutfallslega lægri skatta. Hvernig eru hlutföllin þegar að er gáð? Ef við miðum við óbreytt laun greiða allir skattgreiðendur, 100%, sömu eða hærri skatta. Það er staðreynd málsins, miðað við óbreytt laun eru skattarnir hinir sömu upp að 200 þús. eða hærri. Það er veruleikinn sem fólkið býr við, ekki einhver hlutfallslegur veruleiki sem er diktaður upp í Stjórnarráðinu.

Ég fagna því að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna tali fyrir því að losa um eignarhald á eigum ríkisins sem hægt er að nota í skynsamlegri verkefni eins og að greiða niður skuldir. Einkavæðing banka er það síðasta sem ég átti von á að Vinstri grænir mundu styðja en ég tek eftir því að hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra eru hlynnt því og virðast hafa fengið samþykki fyrir því hjá Vinstri grænum. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni. Ég held að það sé skynsamleg stefna til að fylgja svo maður nefni eitthvað sem er verið að gera rétt.

Í sjávarútvegsmálunum, sem er greinilega stefnt að því að lögfesta miklar breytingar á á vorþinginu, vil ég benda á stærsta misskilninginn sem enn veður uppi um allt. Hann er sá að ekki hafi verið gerðar neinar breytingar á sjávarútvegskerfinu. Á þessu kjörtímabili hafa verið gerðar stórkostlegar breytingar á sjávarútvegsstefnunni, t.d. með strandveiðunum og stórhækkuðu veiðigjaldi. Það hefur tvöfaldast. Útgerðin greiðir tæpa 10 milljarða á ári í veiðigjald. Það er búið að taka mörgum milljörðum meira af greininni til að skila til almennings. Það má ekki gera lítið úr því í samhengi við þessa umræðu.

Auðlindasjóður er nokkuð sem ég hlýt að setja fyrirvara við vegna þess að við erum með sjálfbærar auðlindir. Þeir sem eru ekki með sjálfbærar auðlindir ættu að stofna auðlindasjóð vegna þess að þeir geta bara nýtt þær einu sinni og þurfa að gera það skynsamlega og reyna síðan að ávaxta sjóðinn sinn. En hvers vegna ættum við með okkar sjálfbæru auðlindir að búa til einhvern sérstakan sjóð fyrir þær? Fyrir því hafa ekki verið færð nein rök. Það sem okkur skortir enn þrátt fyrir ráðherrakapal ríkisstjórnarinnar, þrátt fyrir að það séu komnir nýir til að verma sætin, er skýr stefna sem er líkleg til að vinna okkur út úr ástandinu sem hér hefur skapast. Leiðin út úr þeirri stöðu liggur um efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins.