140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:38]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því og held að það sé gagnlegt að við hittumst hér við upphaf þings og ræðum stefnu og störf ríkisstjórnar, verkefnin fram undan og horfur í upphafi nýs árs og er ástæða til að óska mönnum gleðilegs árs þó að nokkuð sé liðið á janúar. Mér finnst vera léttara yfir umræðunni og það er athyglisvert að sá söngur um að hér væri allt í kaldakoli og að ekkert væri að gerast, sem fylgdi okkur langt inn í síðasta ár og jafnvel fram á haustmánuði, er með öllu þagnaður.

Nú reynir enginn maður að bera á móti því að sem betur fer getum við litið til baka yfir árið 2011 og sagt með sanni að okkur miðaði þá verulega áfram á leið út úr erfiðleikunum. Það er satt best að segja merkilegt að upplifa umræður um að 3,5–4% hagvöxtur og sá viðsnúningur í hagkerfinu sem hann er ávísun á, sem verður væntanlega sífellt betur staðfest með áreiðanlegri mælingum, séu ekki mikil tíðindi og verulegt gleðiefni. Sömuleiðis er gleðilegt að atvinnuvegafjárfestingar fara nú vaxandi á nýjan leik. Þær jukust um 13% á fyrstu níu mánuðum síðasta árs (Gripið fram í.) og störfum fjölgar umtalsvert í hagkerfinu, um fimm þúsund störf hafa orðið til frá því að vinnumarkaðurinn náði botni á sínum tíma.

Atvinnuleysismælingar sýna sömuleiðis það sama, þ.e. að árstíðabundið atvinnuleysi vex nú mun hægar en tvö undangengin ár. Það mældist 7,3% í desembermánuði í samanburði við 8% árið áður og 8,3% árið þar áður. Vonir standa til þess að það fækki umtalsvert á atvinnuleysisskrá þannig að það vegi jafnvel upp árstíðasveifluna og mögulega gott betur á næstu mánuðum. Kemur þar til bæði að fjölmargir stunda nú nám sem áður voru á atvinnuleysisskrá og sömuleiðis er fram undan mjög stórt átak undir heitinu Til vinnu í að tryggja mönnum af atvinnuleysisskrá störf í samstarfi ríkisins, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Það ásamt mörgum öðrum dæmum sem nefna mætti er til marks um árangursríkt samstarf sem þessir aðilar eiga í þrátt fyrir allt um þessar mundir og vill gleymast í upphlaupum og stóryrðum um hið gagnstæða. Sama má segja um átak gegn svartri atvinnustarfsemi og átak í endurbótum á húsnæði. Kaupmáttur launa vex nú á nýjan leik, hann óx um 3,7% undangengna tólf mánuði, launavísitalan stóð í nóvemberlok í 111,2, sem er svipað gildi og hún hafði um áramótin 2004–2005.

Ef við lítum á fasteignamarkaðinn urðu umskiptin þar veruleg, um 6.600 kaupsamningum var þinglýst árið 2011 á landinu öllu og nam heildarverðmæti fasteignaviðskipta um 170 milljörðum kr., en meðalupphæð á hvern samning var um 26 millj. kr. Til samanburðar má sjá að árið 2010 var veltan tæpir 119 milljarðar, kaupsamningar voru rúmlega 4.700 og meðalupphæðin var þá rúmar 25 millj. kr. Heildarvelta fasteignaviðskipta hefur því aukist um tæplega 45% frá árinu 2010 og kaupsamningum hefur fjölgað um rúmlega 40%. Veltan á fasteignamarkaði á árinu 2011 er mjög svipuð sem hlutfall á landsvísu og árið 2008.

Brottflutningur var mikið til umræðu, sérstaklega á síðustu mánuðum nýliðins árs. Fóru margir mikinn í þeirri umræðu og töldu að þar væri vaxandi vá fyrir dyrum. Nú liggur fyrir uppgjör á síðustu þremur mánuðum ársins og í ljós kemur að þá var einmitt mikill viðsnúningur í rétta átt, þá dró verulega úr brottflutningi íslenskra ríkisborgara frá landinu, reyndar svo mjög að hann var nánast enginn á síðustu þremur mánuðum ársins eða um 15 manns. Í heild fóru 70 manns fleiri frá landinu á síðasta ársfjórðungi en fluttust til þess og það er gríðarlegur viðsnúningur frá undanförnum árum.

Varðandi þá miklu fjölgun sem varð á Íslandi mestallan síðasta áratug gleyma menn því oft að þá jókst íbúafjöldi landsins mjög hratt. Árið 2005 bjuggu ekki nema 293.500 manns á Íslandi og við fórum yfir 300 þúsunda markið á árinu 2007. Íbúafjöldinn varð mestur í ársbyrjun 2008, þá voru hér rúmlega 319.300 íbúar, en nú í árslok 2011 hefur sú tala verið slegin, þannig að fækkunin sem varð á árinu 2009 hefur verið vegin upp og vel það. Landsmönnum fjölgaði um á tólfta hundrað á síðasta ári og eru nú fleiri íbúar hér í byrjun ársins en nokkru sinni fyrr í sögunni eða 319.560 manns. Það hlýtur að róa mjög þá sem höfðu af þessu þungar áhyggjur og drógu upp afar dökka mynd og er athyglisvert að það var akkúrat á tímanum þegar viðsnúningurinn til hins betra átti sér stað. Mikið geta þeir nú fækkað fyrirsögnunum á Morgunblaðinu sem flutti af þessu mikinn hræðslusöng nánast linnulaust alla síðustu mánuði ársins. Það er að mínu mati þeim mun athyglisverðara í ljósi þess hversu hröð fjölgunin hafði verið árin þar á undan að í reynd hefur landinu haldist vel á íbúafjölda sínum og landsmönnum fjölgar nú umtalsvert á nýjan leik tvö ár í röð.

Varðandi ríkisfjármálin liggur sá árangur fyrir sem þar hefur náðst og ef forsendur fjárlaga þessa árs ganga í aðalatriðum eftir hefur þar orðið gríðarleg framför til hins betra. Engu að síður er það ljóst að meðal forgangsverkefna nú og á næstu missirum þarf að styðja betur við efnahagsbatann, fjölga störfum og örva fjárfestingar. Þar þarf margt að koma til. Við þurfum að rjúfa betur þá kyrrstöðu sem stórlaskaðir efnahagsreikningar fyrirtækja og erfið ytri skilyrði sköpuðu okkur á missirunum eftir hrunið. Þar eru víða mjög jákvæð teikn sem betur fer. Sjávarútvegurinn er í mikilli sókn, hann hefur greitt niður skuldir stanslaust undanfarin þrjú ár og afkoman er afar góð, enda fara nú fjárfestingar þar vaxandi á nýjan leik og líður varla sá dagur að maður fái ekki fréttir frá fyrirtækjum um kaup á nýjum tækjabúnaði eða fjárfestingum, t.d. við að auka verðmætasköpun landvinnslunnar þar sem mikil þróun á sér stað.

Það horfir vel með loðnuvertíð á þessum vetri og gæti hún orðið sú besta um árabil og fært á þriðja tug milljarða inn í þjóðarbúið. Kolmunnakvótinn vex nú á nýjan leik, útlitið með þorskveiðar er ágætt og markrílvertíðin á síðasta ári var mikið ævintýri, einhver mesti búhnykkur sem við höfum lengi fengið inn í hagkerfi okkar og greinin stóð sig glæsilega við að vinna um og yfir 90% af öllum aflanum til manneldis.

Ferðaþjónustan vex mjög hratt. Að baki er algjört metár í ferðaþjónustu landsins, samanber fréttaflutning af því. Síðasta ár var langstærsta ferðamannaár sögunnar, segir á visir.is, og hlýtur það að gleðja hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson, sem hnussaði undir ræðu forsætisráðherra um vaxandi bjartsýni, að sami miðill greinir frá því að bjartsýni aukist nú hjá Íslendingum. (Gripið fram í.)

Óvissan sem uppi er tengist að sjálfsögðu ekki síst hinu ytra efnahagslega umhverfi og hvernig vinnst úr málum í evrópskum hagkerfum sem mörg hver eiga í miklum vanda. Við verðum að horfast í augu við að það getur fyrr eða síðar haft áhrif á útflutningsstarfsemi okkar þar sem við höfum notið góðra viðskiptakjara undanfarin missiri og hagstæðs gengis. En vandræðin geta líka bankað á dyr okkar með öðrum hætti og fyrir því finnum við reyndar nú þegar, því miður, að erfiðleikar í bankamálum í álfunni valda því að aðgengi burðugra fyrirtækja að fjárfestingafé er erfiðara en áður. Það hefur tafið sum þau verkefni sem við höfum bundið vonir við að væru hér að fara á fulla ferð.

Því verður ekki á móti mælt, frú forseti, að náðst hefur mikill árangur við að koma Íslandi út af því stórkostlega hættusvæði sem það var statt á fyrstu mánuðina og missirin eftir hrunið. Staða þjóðarbúsins nú er gjörbreytt og horfurnar allar vænlegri og þannig að athygli vekur í samanburði við önnur lönd. Engu að síður er enn verk að vinna og það ætlar þessi ríkisstjórn sér að gera, að vinna af alefli að áframhaldandi framfaramálum þá 15 mánuði eða svo sem hún hefur enn til stefnu.

Það stendur ekki til, fyrir þá sem það hafa í hyggju, að spóla aftur til ársins 2007 og ef eitthvað er sérstakt áhyggjuefni í íslenskum stjórnmálum er það satt best að segja það hve lítil hugmyndafræðileg endurnýjun hefur orðið hjá þeim öflum sem réðu hér ferðinni og stilltu kompásinn á árunum fyrir hrunið sem síðan varð.

Möguleikar Íslands eru miklir og þeir blasa við okkur allt um kring á sama tíma og mannkynsins í heild sinni bíða mikil og krefjandi verkefni. Tíminn til að ráða bót þar á er í sumum tilvikum skammur, samanber loftslagsbreytingarnar og fleira mætti til telja. Í þessum heimi er staða þjóðar góð sem er ríkulega búin af auðlindum og mannauði og okkur Íslendingum er ekkert að vanbúnaði að tryggja hér betur framvindu jákvæðrar hagþróunar og samfélagsþróunar, ljúka því verkefni að koma okkur út úr þrengingunum og það ætlar þessi ríkisstjórn að gera.