140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:30]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að óska hæstv. núverandi fjármálaráðherra til hamingju með fyrstu ræðuna í því embætti; það var um margt áhugavert að hlusta á hana. Ég vildi óska þess að ég deildi bjartsýninni með hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra og hæstv. núverandi fjármálaráðherra, þeirri bjartsýni sem birtist í ræðum þeirra, en því miður deili ég henni ekki með þeim.

Ég vil leyfa mér að ræða í hverju mér sýnist stefna ríkisstjórnarinnar birtast.

Virðulegur forseti. Við stöndum nú í upphafi árs 2012 frammi fyrir ýmsum verkefnum. Við getum horft til þess að verkalýðshreyfingin ræðir uppsögn nýgerðra kjarasamninga, ekki vegna ágreinings við Samtök atvinnulífsins, eins og algengt hefur verið undanfarin ár, heldur vegna aðgerðaleysis og vanefnda vinstri ríkisstjórnar í tengslum við gerð kjarasamninga.

Það var áhugavert, frú forseti, að hlusta á hæstv. forsætisráðherra sem nefndi eingöngu Samtök atvinnulífsins sem grímulausa stjórnarandstöðu, en minntist ekki einu orði á þann ágreining sem uppi er við verkalýðshreyfinguna í landinu. Aðgerðaleysi og síendurteknar vanefndir þessarar vinstri stjórnar hljóta að skipa sess og verða skráðar í sögu verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi þegar til lengri tíma er litið.

Frú forseti. Ég er ekki þeirrar skoðunar að stjórnvöld eigi að búa til störf. Ég tel að stjórnvöld eigi að tryggja að umhverfi atvinnulífs og fjárfesta sé á þann veg að hægt sé að búa til ný störf. Það hefur þessi ríkisstjórn ekki gert. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur boðið upp á óstöðugt skattumhverfi og vanhugsaða skatta, og hvorugt er til þess fallið að örva atvinnulíf eða hvetja til fjárfestinga.

Boðaðar hafa verið breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu frá myndun þessarar ríkisstjórnar. En 15 mánuðum fyrir kosningar, eða 15 mánuðum fyrir lok kjörtímabils, höfum við ekki orðið vör við hvernig þær breytingar eigi að vera. Á meðan svo er er ekki von til þess að fjárfest verði í sjávarútvegi eða að nýsköpun í fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi líti dagsins ljós.

Frú forseti. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2012 birtist stefna ríkisstjórnarinnar. Þar er að finna auknar álögur tengdar ýmsum vörugjöldum að upphæð 1.800 millj. kr. Þær 1.800 millj. kr. eru teknar úr vösum einstaklinga og fjölskyldna og rýra að sjálfsögðu ráðstöfunartekjur þeirra. Ríkisstjórnin hefði frekar átt að huga að því hvernig hún hefði getað aukið ráðstöfunartekjur fólks í landinu til að það gæti mætt þeim vanda sem það glímir við vegna falls bankanna og efnahagshrunsins, að ekki sé talað um þær víxlverkanir sem ýmsar þessar auknu álögur hafa í för með sér til hækkunar húsnæðislána einstaklinga og fjölskyldna. Ekki hefur heyrst múkk frá ríkisstjórninni um að skoða þá þætti er liggja að baki vísitölu neysluverðs til að rjúfa þann vítahring víxlverkunar þrátt fyrir margar fyrri yfirlýsingar forustumanna núverandi ríkisstjórnar.

Virðulegur forseti. Fram kemur í Viðskiptablaðinu þann 12. janúar 2012 að fjármálaráðuneytið ætli sér að sækja tugi milljarða með arði og eignasölu á árunum 2012–2015, og ég ætla ekki að mæla því mót, það tel ég gott. En ég óttast að þeir fjármunir verði ekki nýttir til að draga úr álögum á einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki og ekki heldur til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Ég óttast það verulega að í þeim áformum sem þegar sjást merki um í kosningafjárlögum ársins 2013 verði fjármunum sem fást með sölu ríkiseigna, allt að 7 milljörðum, og arði, allt að 2 milljörðum, varið til að fegra ímynd ríkisstjórnarinnar, sem er svo sem ekki vanþörf á. Ég óttast að við munum heyra þau rök æðioft (Forseti hringir.) á næstu 15 mánuðum að svigrúm hafi skapast til þess að gera hitt og þetta — orðið „svigrúm“ munum við fá að heyra æðioft — án þess þó að fjármunirnir verði notaðir á þann veg að það verði (Forseti hringir.) þjóðinni til heilla.