140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég óska eftir svörum og jafnframt að þeim svörum fylgi tímasetningar. Ég óska að fá svar við því hjá hæstv. forsætisráðherra hvort það sé stefna hennar að afnema verðtrygginguna og hvenær standi til að afnema hana.

Ég geri mér grein fyrir að það er vinna í gangi á þingi um þessi mál, en það er mjög mikilvægt að jafnframt komi þrýstingur frá efstu lögum stjórnsýslunnar um að verðtryggingin verði afnumin. Núna er til dæmis verð á olíu og bensíni í hæstu hæðum. Það þýðir að afborganir sem nú þegar eru mjög háar af húsnæðislánum hafa hækkað enn frekar. Ég held að það megi alveg segja með sanni að mjög margir hafa glatað greiðsluviljanum. Það er mjög alvarlegt.

Mig langar jafnframt að spyrja hvort til standi að bjóða upp á persónukjör fyrir næstu kosningar. Hvenær stendur til að koma því á? Það er mjög mikilvæg lýðræðisumbót og eitthvað sem almenningur kallaði mjög eftir í janúarbyltingunni.

Þá óska ég eftir að fá upplýsingar um hvenær standi til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótamálið og hvort til standi að bjóða upp á að kjósa um fleiri en eina leið.

Ég óska eftir að fá eindregin svör um það hvort stjórnarskráin hin nýrri verði ekki örugglega borin undir þjóðaratkvæði þegar forsetakosningar fara fram í júní.

Síðan langar mig jafnframt að heyra hvort hæstv. forsætisráðherra hafi ekki hug á að styðja þjóðaratkvæðagreiðslufrumvarp sem þingmenn Hreyfingarinnar munu leggja fram í þriðja eða fjórða skiptið síðan við komum inn á þing. Í því er gert ráð fyrir að 10% þjóðarinnar geti kallað eftir þjóðaratkvæði og jafnframt er gert ráð fyrir að koma á fót lýðræðisstofu. Það er mjög mikilvægt að þessu verði komið á hið allra fyrsta og helst í næsta mánuði þannig að þjóðaratkvæðagreiðslur um nýja stjórnarskrá og um kvótamálin verði sem bestar úr garði gerðar.

Kæri forseti. Þrátt fyrir að hafa heyrt bæði þungar áhyggjur og mikla bjartsýni í þessum umræðum í dag hef ég fyrst og fremst áhyggjur af þeim sem eiga ekki fyrir mat. Ég hef áhyggjur af þeim sem óttast að vera bornir út, óttast að í skjóli nætur komi fyrirtæki eins og Lýsing og fleiri og steli bílnum þeirra. Ég hef áhyggjur af þeim sem búa við örorku og jafnframt fátækt. Þeir eiga allt of fáa málsvara. Ég hef áhyggjur af þeim sem hafa verið atvinnulausir til langs tíma og eiga enga von lengur. Ég hef áhyggjur af þeim sem hafa glatað von um réttlæti og eina von þeirra um réttlæti er að flytja frá Íslandi. Ég hef áhyggjur af því að enginn hefur axlað ábyrgð nema nauðbeygður. Ég hef áhyggjur af því að útrásarvíkingarnir fái áfram að fjárfesta hérlendis. Ég hef áhyggjur af því að stjórnsýslan okkar sé ónýt. Þurfum við ekki að núllstilla kerfið, hæstv. forsætisráðherra?

Ég óska eftir að heyra hvort hæstv. forsætisráðherra deili skoðunum okkar í Hreyfingunni um að gera þurfi róttækar og sársaukafullar kerfisumbætur. Og það verður að hugsa til langs tíma. Það er ekki nóg að taka bara á vandamálum dagsins í dag. Við verðum að hugsa til langs tíma. Við verðum að fá nýja stjórnarskrá. Við verðum að fá persónukjör. Við verðum að fá þjóðaratkvæðagreiðslur. Við verðum að afnema verðtrygginguna. Við verðum að tryggja að hér rísi nýtt Ísland úr alvöruspýtum en ekki fúaspýtum.