140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:16]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja það mér fannst ræður formanna stærstu stjórnarandstöðuflokkanna ekki vera upp á marga fiska. (BJJ: Nú?) (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það var síður en svo þannig að þeir blésu þjóðinni í brjóst einhverja von eða bjartsýni, eða að þeir hefðu einhverja framtíðarsýn fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Þeir voru með nöldur og tuð og lásu upp úr gömlum excel-skjölum sem hefði þurft að uppfæra áður en farið var með þau í ræðustól. Ég held því að þjóðin hafi ekki grætt mikið á því ef hún hefur búist við því að stjórnarandstaðan sem kallar eftir kosningum, gæfi henni einhverja von, að hún taki við. (BJJ: Eru þetta bara vonbrigði?)

Formaður Sjálfstæðisflokksins talaði um stöðugar mannabreytingar. Ríkisstjórn mín er ekki enn búin að slá það met sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn settu á árunum 2003–2007. (BJJ: Nú?) Þá gegndu 17 ráðherrar embættum í fjögur ár, þeir eru nú ekki nema 15 (Gripið fram í.) í þessari ríkisstjórn enn þá. Það er alltaf gott að hafa stöðugleika. Hvað voru margir forsætisráðherrar á árunum 2003–2007? Þeir voru þrír (Gripið fram í.) og það voru fjórir utanríkisráðherrar, (Gripið fram í.) bara svo dæmi sé nefnt, þannig að menn ættu nú aðeins (Gripið fram í.) að lesa stjórnmálasöguna

(Forseti (ÞBack): Gefið hljóð.)

og sögu Stjórnarráðsins áður en talað er um óstöðugleika hjá þessari ríkisstjórn. Samt var hvorki verið að innleiða nýjar breytingar í Stjórnarráðinu, mestu skipulagsbreytingar sem gerðar hafa verið í sögu lýðveldisins, né fækkað í ríkisstjórn eins og hér er verið að gera. Þar var allt á sömu bókina lært. (Gripið fram í.)

Formaður Sjálfstæðisflokksins efaðist um jákvæða þróun kaupmáttar en hann hefur aukist verulega á umliðnu ári. Formaðurinn efaðist um skattalækkanir sem 60–70% skattgreiðenda hafa fengið. Hann efaðist jafnvel um hrunið og talaði um „svokallað hrun“. Hann talaði um að útgerðin greiddi 10 milljarða í gegnum veiðigjald. Mínar tölur segja að hún hafi greitt 3,1 milljarð kr. 2010–2011 og 1,4 milljarð kr. 2009–2010, en hv. þingmaður fékk út 10 milljarða. (BJJ: Hvaða excel-skjal …?) Menn verða að skoða hvað þeir segja í ræðustól. (BjarnB: Þetta voru svörin frá ráðuneytinu.)

Hv. formaður Framsóknarflokksins talaði um leyndarhyggju o.s.frv. Hann er búinn að gleyma leyndarhyggjunni sem var í Stjórnarráðinu á tímum Framsóknarflokks og sjálfstæðismanna þar sem ekki var hægt að draga neitt upp um einkavæðingu á Búnaðarbankanum og Landsbankanum sem eru þó helsta afleiðing þess hruns sem við höfum farið í gegnum. (Gripið fram í.) Það var ekki fyrr en í minni tíð sem forsætisráðherra sem þau skjöl voru upplýst hvað einkavæðinguna varðar.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson talaði um fólksflóttann eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson. Ég hef auðvitað haft áhyggjur af fólksflóttanum. Það hefur verið full ástæða til að hafa áhyggjur af honum. (Gripið fram í.) Það er líka ástæða til að gleðjast á þessum degi þegar við fáum tölur um að verulega hafi dregið úr fólksflótta. (BJJ: Þær hækka samt.) Hv. þingmaður taldi enga ástæðu til að gleðjast yfir því. (Gripið fram í.)

Samtök atvinnulífsins voru búin að spá því að 500 manns sem mundu flytja umfram aðflutta úr landi á þessum ársfjórðungi. Þeir voru 70, þar af 15 Íslendingar, eða 3% af því sem SA spáði um brottflutta.

SA og ASÍ ber ekki einu sinni saman um efndir ríkisstjórnarinnar. ASÍ talar um að 15 loforð hafi ekki verið efnd en SA talar um 24. Þeir ættu nú að tala sig saman, þessir háu herrar. Þeir ættu að fara í gegnum loforðin sem efnd hafa verið sem kosta tugi milljarða kr. og hafa komið heimilum þessa lands til góða, meðal annars í formi persónuafsláttar, skattalækkana fyrir láglaunaheimilin, hækkunar á bótum almannatrygginga, sem eru 12% á einu ári á meðan það voru 11% hjá launafólki á kjarasamningstímanum, á meðan kaupmáttur lægstu launa hefur hækkað síðastliðna 12 mánuði um 8–9% og almennur kaupmáttur um 3,5%. Stjórnarandstaðan er bara með bölmóð, enga bjartsýni, enga von fyrir fólkið, enga framtíð. Er stjórnarandstaðan með talsmáta sínum að reyna að sjá til þess að fólk flýi land eða hvað? Ég held hún ætti að tala meiri bjartsýni í landsmenn (Forseti hringir.) en að vera með þennan bölmóð sem ekki á við nein rök að styðjast, og fækka gömlum excel-skjölum eða lesa að minnsta kosti upp úr nýjum úr þessum ræðustól. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)