140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

gerð og fjármögnun Vaðlaheiðarganga.

213. mál
[17:29]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Þessi ruglandi í allri umræðunni er með ólíkindum. Hér kom upp næsta stef sem kveða skal; að bjóða upp á einhverja nýja framkvæmd, tvöföldun Hvalfjarðarganga, og drepa umræðunni á dreif með þeim hætti. Það liggur fyrir að þetta verk er lagt upp með þeim hætti að það eigi að fjármagnast með veggjöldum. Þau veggjöld sem ætlunin er að greiða af því verki eru ekki til nota í einhverjar aðrar framkvæmdir því að umferðin fer um þessi einu göng. Það lá fyrir á fjárlaganefndarfundi í morgun að IFS Greining mat stöðuna þannig að höfuðstóllinn af þeim lánveitingum sem fyrir liggja í fjárlögum — það eru heimildargreinar bæði í fjáraukalögum og fjárlögum ársins 2012 fyrir því að fara í þetta verk — verður alltaf greiddur til baka. Það liggur alveg fyrir. Það er spurning hvaða raunvexti framkvæmdin kann að bera. Menn kunna að svara því, (Forseti hringir.) umhverfis- og samgöngunefnd ætlar að fara nákvæmlega yfir það mál, (Forseti hringir.) en mér finnst það sæta nokkurri furðu að málið sé þar inni en ekki á borði fjárlaganefndar.