140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

gerð og fjármögnun Vaðlaheiðarganga.

213. mál
[17:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða framkvæmd sem menn geta stutt og haft mikla velþóknun á í ljósi ýmissa samfélagslegra áhrifa sem henni fylgja. Eins og hefur verið rætt hér í dag er forsendan fyrir því að fara í þessa framkvæmd núna sú að um sé að ræða verkefni sem eigi að standa undir sér. Ég verð að játa að þegar ég hef kynnt mér þetta mál og hlustað á umfjöllun um það, nú síðast í morgun á fundi umhverfis- og samgöngunefndar, hafa vaxið með mér áhyggjur af því að þessi forsenda standist, að þessi framkvæmd geti staðið undir sér. Hér er gert ráð fyrir að ríkið komi að, bæði sem hluthafi í Vaðlaheiðargöngum hf. og eins sem lánveitandi á framkvæmdatímanum, þannig að hagsmunir ríkisins eru miklir. Þess vegna er nauðsynlegt að farið sé (Forseti hringir.) vel yfir allar forsendur. Mín skoðun er sú að það hafi ekki verið gert enn þá.