140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

gerð og fjármögnun Vaðlaheiðarganga.

213. mál
[17:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum sem tóku hér til máls. Það sem ég sagði í upphafsræðu minni var einmitt þetta: Þurfum við ekki að koma málinu í annan farveg? Þurfum við ekki að fara að ræða það að við viljum agaða fjárstjórn ríkissjóðs?

Hér koma menn upp og fullyrða að verið sé að fela staðreyndir — það er ekki verið að fela neinar staðreyndir — fullyrða að forsendur séu á bak og burt. Það er komin staðfesting á því að allar forsendur standast. Menn hafa efasemdir um að 90% af umferðinni fari þarna í gegn. Rökstyðjið svona fullyrðingar áður en þeim er kastað út í umræðuna. Það er komin skýrsla og greining á því að þetta sé langlíklegast.

Ég beindi þeirri spurningu til hæstv. innanríkisráðherra hvort það væri í ljósi þjóðhagslegra forsendna þess virði að fara í framkvæmdina jafnvel þó að einhver örlítil áhætta félli á ríkissjóð. Hæstv. innanríkisráðherra sagði að við þyrftum að ýta þjóðhagslegu forsendunum til hliðar. Ég er algerlega ósammála því. Þetta snýst ekki bara um fjárhagslegu hliðina jafnvel þó að þær standist. Ef menn tækju sér bara smátíma í að lesa þær skýrslur sem hafa verið lagðar fram. Það skiptir öllu máli að hér er um að ræða framkvæmd sem getur gjörbylt samkeppnisumhverfi þess landsvæðis sem núna glímir við mikið atvinnuleysi og brottflutning fólks af svæðinu, (Gripið fram í.) landsvæði sem hefur þurft að þola það að fá loforð eftir loforð frá þessari ríkisstjórn um atvinnuuppbyggingu sem ekki hefur staðist, og þarf nú að hlusta á að hér greinir menn innan stjórnarflokkanna á um hvort fara eigi í þessa framkvæmd eða ekki.

Þetta er einfaldlega ekki boðlegt, virðulegi forseti. Ég vonast til þess að hæstv. innanríkisráðherra aðstoði okkur við að koma þessu málefni í réttan farveg (Forseti hringir.) þannig að allar upplýsingar séu uppi á borðinu og síðan verði hægt að ráðast í framkvæmdina í kjölfarið.