140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

gerð og fjármögnun Vaðlaheiðarganga.

213. mál
[17:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er misskilningur ef menn halda að ég vilji ýta til hliðar samgönguöryggi eða þjóðhagslegum forsendum þegar við tökum ákvarðanir um samgöngumál. Þvert á móti á þetta að vera sjálft leiðarljósið. Hins vegar var tekin ákvörðun um að taka þessa tilteknu framkvæmd út úr samgönguáætlun og ræða hana ekki á slíkum forsendum, heldur einvörðungu fjárhagslegum, hvort hún kæmi til með að rísa undir sjálfri sér með veggjöldum. Þetta er spurningin sem við stöndum frammi fyrir. Síðan fengum við nasasjón hér af umræðu sem er fyrirhuguð næstkomandi fimmtudag um samgönguáætlun. Þá ræðum við hinar þjóðhagslegu forsendur. Þá hlustum við á gagnrýni sem meðal annars kom fram hér hve hlutfallslega lítið fjármagn er látið renna til suðvesturhornsins. Þetta er eitt sjónarmið sem fram hefur komið Af hverju flýta menn ekki Dýrafjarðargöngum? Hvað með samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum (BJJ: Norðfjarðargöng.) eða annars staðar í landinu? Norðfjarðargöng, alveg rétt. Þá ræðum við þau mál með tilliti til þjóðhagslegra forsendna. Það sem við erum að gera varðandi þetta mál er að skoða málið þröngt út frá tilteknu viðskiptamódeli.

Það er ekki rétt að samkomulag sé um forsendurnar. Það er ósamkomulag um þær, um fjármagnskostnaðinn til dæmis, um umferðarþungann og annað af því tagi. Þetta ætlum við að taka okkur tíma til að ræða gaumgæfilega í þinginu af hálfu fjárveitingavaldsins.