140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

umskipunarhöfn í tengslum við norðurslóðasiglingar.

214. mál
[17:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Nú heyrast æ oftar þær raddir að hægt verði að fara í norðurslóðasiglingar fyrr en menn áætluðu. Það liggur fyrir að þær geti skapað gríðarlega mikla atvinnu og umsvif á norðausturhorni landsins. Sveitarfélög á svæðinu innan Eyþings hafa samþykkt að leggja eigi áherslu á að umskipunarhöfninni verði fundinn staður á milli Þórshafnar og Vopnafjarðar og þó að margir vildu vafalaust fá umskipunarhöfnina til sín þá virðist sá staður nú vera líklegastur. Við eigum í samkeppni við aðrar þjóðir eins og Norðmenn, Hollendinga, jafnvel Belga og fleiri sem búa yfir stórum höfnum um að fá þessi umsvif.

Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra hvort hann telji ekki tímabært að ríkisstjórnin móti sér sérstaka stefnu til að missa ekki af því mikla tækifæri að ná þessu verkefni hingað til lands, sérstaklega í ljósi þess að svæðið er dreifbýlt, það er kalt í atvinnulegu tilliti og verkefnið gæti skapað mikil og góð umsvif, ekki bara þarna á svæðinu heldur um allt Norðurland og Austurland.

Ég hef svo sem ekki miklu við þetta að bæta. Ég vona að innanríkisráðherra taki vel í þessa fyrirspurn mína og að hann taki málið upp innan ríkisstjórnarinnar sem fyrst.