140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

umskipunarhöfn í tengslum við norðurslóðasiglingar.

214. mál
[17:42]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek mjög vel í þessa fyrirspurn og tel hana vera mjög verðuga og nokkuð sem við eigum að horfa til af alvöru og raunsæi til skamms tíma og langs tíma. Í samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022 segir eftirfarandi í umfjöllun um horfur í siglingum, með leyfi forseta:

„Fylgjast þarf vel með aðstæðum á norðurslóðum og þróun mála er tengjast norðausturleiðinni.“

Ég óskaði eftir greinargerð af hálfu sérfræðinga ráðuneytisins í tilefni af þessari fyrirspurn og langar til að vitna í hana en þar segir:

Hlýnandi andrúmsloft hefur haft þau áhrif að heimskautaísinn hefur hopað og fari sem horfir gætu opnast möguleikar fyrir Íslendinga í tengslum við það. Námavinnsla á austanverðu Grænlandi gæti opnað möguleika á umskipun á málmum sem síðan yrði siglt til ýmissa annarra landa. Þá mundi ýmiss konar önnur þjónusta hagnast. Hagstæðar aðstæður svo sem nálægð við alþjóðlega flugvelli og birgðastöðvar gætu orðið Íslendingum í hag. Þarna gætu Reykjavík, Ísafjörður og Akureyri átt góða möguleika. Olíu- og gasleit á svæðinu sem ekki hefur verið hægt að komast að hingað til á milli Svalbarða og Grænlands mundu hafa svipuð áhrif.

Eftir að ísinn hefur hopað nægilega mikið og siglingar hefjast um norðaustursiglingaleiðina svokölluðu gætu opnast möguleikar í þjónustu við þá starfsemi. Stytting siglingaleiðarinnar milli Evrópu og Asíu gæti orðið umtalsverð. Sem dæmi mundi siglingaleiðin frá Sjanghaí til Evrópu styttast um 1.400 kílómetra eða um 8% ef ekki þyrfti að fara um Súez-skurðinn. Það er þó ekki víst að Ísland verði umskipunarhöfn fyrir nýju siglingaleiðina.

Svo virðist að þrír möguleikar séu í stöðunni:

Að umskipunin færi fram í Múrmansk í Rússlandi og að skipin sem koma frá Asíu sneru þar við.

Að á Íslandi yrði umskipunarhöfn fyrir stór skip sem koma Norður-Íshafsleiðina. Að öllum líkindum yrði eingöngu hluti farmsins losaður á Íslandi en gámar til meginlandsins yrðu áfram losaðir í Rotterdam þar sem allar tengingar við meginlandið eru fyrir hendi bæði á sjó og á landi.

Þriðji möguleikinn og sá líklegasti er að skipin kæmu hvorki við á Íslandi né í Múrmansk heldur sigldu beint áfram til Rotterdam. Engu að síður liggja tækifæri í þessum breytingum og íslensk skipafélög gætu verið í samstarfi við stóru skipafélögin sem kæmu til með að sigla Íshafsleiðina. Þau gætu t.d. tekið við gámum sem ættu að fara til Færeyja, Norður-Noregs, Skandinavíu, Bretlands, Bandaríkjanna og Kanada en Íshafsskipin sigldu síðan áfram til Rotterdam með það sem ætti að fara til Evrópu.

Nokkuð er í land með að þessar aðstæður verði að raunveruleika, a.m.k. 10–20 ár. Til að nýjar aðstæður verði Íslendingum í hag þarf að búa í haginn fyrir þær. Hér þarf að vera hægt að taka við þessum skipum en óvíst er hvar höfninni yrði best fyrir komið. Norðurland og Austurland væru eðlilegir kostir enda þarf höfnin að vera sem næst siglingaleiðinni um Íshafið til Rotterdam eða meginlands Evrópu. Höfnin þarf að hafa 16–18 metra viðlegudýpi, nægt viðlegupláss og landrými.

Þá er rétt að líta til þróunar á öðrum flutningaleiðum milli Evrópu og Asíu. Þrjár leiðir eru líklegastar með þróun flutninga milli Asíu og Evrópu.

Í fyrsta lagi núverandi skipaflutningakerfi með tengingum við lestir og landflutningakerfi í stærstu höfnum heimsins. Gríðarlegar fjárfestingar liggja í þessu kerfi bæði í höfnum og skipum.

Í öðru lagi eru lestarsamgöngur milli Asíu og Evrópu, en í gangi er tilraunaverkefni með flutninga frá Kína til Klaipeta í Litháen.

Í þriðja lagi er nýja Íshafssiglingaleiðin en á henni yrði líklega flutt hráefni frá Evrópu til Asíu og fullunnar vörur til baka auk olíu- og gasflutninga og flutninga sem tengdust einstökum verkefnum.

Á sama tíma sem aukin umræða fer fram um nýju Íshafssiglingaleiðina þróast hinar tvær leiðirnar áfram. Þá eru Bandaríkjamenn og Kanadamenn að huga að sinni Íshafssiglingaleið. Því verður að horfa til þess að þrátt fyrir að breytingar séu að verða á flutningum og námavinnslu og að hugsanlega skapist möguleikar í kringum það er óvíst hvernig þau mál þróast. Verið er að efla aðrar flutningaleiðir en Íshafssiglingarnar og þó að af þeim verði er óvíst hver hagur Íslendinga verður af þeim.

Ég vísa aftur til texta greinargerðar í samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022 þar sem áhersla er lögð á að við fylgjumst vel með þessum málum. Við þurfum að búa í haginn fyrir þau tækifæri sem kunna að skapast við þær breyttu aðstæður sem eru við sjóndeildarhringinn.