140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

umskipunarhöfn í tengslum við norðurslóðasiglingar.

214. mál
[17:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir þessa mikilvægu spurningu og um leið hæstv innanríkisráðherra fyrir svörin sem voru góð.

Ég vil eins og aðrir þingmenn taka undir mikilvægi þessa máls. Ég held að við verðum að vera á tánum í þessu mikilvæga máli sem getur orðið eitt af okkar mikilvægustu hagsmunamálum, ekki bara til skemmri tíma heldur líka til lengri tíma. Eftir nokkrar mínútur verða „strákarnir okkar“ á tánum í baráttu við Króata og ég held að í þessu máli sé mikilvægt að innanríkisráðherra verði ekki síst á tánum í samvinnu við sveitarfélögin á Norðausturlandi, við samfélagið og við atvinnulífið. Mér þætti ágætt ef hann gæti komið inn á það í seinna svari sínu hvort hann beiti sér ekki markvisst fyrir víðtæku samstarfi til að gæta hagsmuna Íslands til lengri tíma litið.