140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

umskipunarhöfn í tengslum við norðurslóðasiglingar.

214. mál
[17:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem tóku þátt í þessari umræðu. Það er einhugur um að við þurfum að vanda okkur mjög, vera á tánum og vakandi og ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir hans orð í þeim efnum.

Ítalir sóttu ekki fyrir svo löngu síðan um inngöngu í Norðurheimskautsráðið. Af hverju skyldi það vera? Jú, vegna þess að það eru óþrjótandi möguleikar á vinnslu ýmissa auðlinda með norðurslóðasiglingum á einmitt þessu svæði. Ég vakti sérstaklega athygli á því þegar haldin var ráðstefna um þessi mál og Íslendingum var ekki boðið. Þá vöknuðu íslensk stjórnvöld af værum blundi.

Ég hef svolitlar áhyggjur af því, virðulegi forseti, að eftir þessa umræðu munum við bara fylgjast með. Ég held að við þurfum að taka forustu, við þyrftum að stíga einhver skref. Nú þegar hafa komið aðilar frá stórum skipafélögum, rætt við menn á Þórshöfn og á því svæði og lýst yfir áhuga á að skoða staðhætti. Íslensk stjórnvöld verða að koma þar að og vera með. Nú hafa sveitarfélögin á þessu svæði lagt mikla vinnu akkúrat í þessa drauma, þetta eru vissulega draumar í dag, en ríkisvaldið verður að vera með. Þrátt fyrir þessar áhyggjur vil ég þó þakka fyrir þá umræðu sem hér fór fram og jákvæð viðbrögð ráðherra.