140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

ljósmengun.

132. mál
[18:17]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er gaman að tala um sérstæð mál eins og hér eru tekin upp. Hv. þm. Mörður Árnason tekur í þriðja skiptið upp við þriðja ráðherrann, hæstv. umhverfisráðherra, ljósmengunarmál og það er mjög við hæfi.

Ég fagna því líka að það eigi að taka á þessu í byggingarreglugerð. Þótt ég haldi að það verði kannski erfitt að eiga við þetta í borgum og bæjum er mikilvægt að huga að þessu, sérstaklega úti á landsbyggðinni, vegna þess að þetta eru ákveðin umhverfisgæði sem hafa farið forgörðum víðast hvar annars staðar þar sem er mjög mikið af manngerðu umhverfi. Hér eigum við mjög mikið af ósnortnum víðernum þannig að vel sést til stjarna og til norðurljósa. Því miður held ég að það sé svo komið að talsvert af börnum og unglingum á Íslandi þekki ekki stjörnumerkin, þau sjá ekki stjörnurnar nógu vel þannig að foreldrarnir geta ekki alveg kennt þeim um þær. Það er mikilvægt að halda þeirri þekkingu líka til haga.

Ég vil samt koma því á framfæri varðandi landsbyggðina að mér finnst koma til greina að lýsa upp ákveðin náttúrufyrirbæri í náttúrunni, einstök kennileiti, um ákveðinn tíma. Það finnst mér spennandi (Forseti hringir.) hugmynd sem ég held að við höfum skoðað allt of lítið.