140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

ljósmengun.

132. mál
[18:22]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir afar góða umræðu um þetta mikilvæga mál. Ég held að hér sé að verða til sérstakur og skilgreindur angi náttúruverndar sem er myrkurvernd. Við ættum að láta orð hv. þingmanns verða okkur hvatning til að skoða þennan mikilvæga umhverfisþátt í manngerðu umhverfi, hvort sem er í skipulagi, byggingum eða öðru. Þetta er sannarlega viðfangsefni líka í byggð, til að mynda þegar við horfum til kastara á íþróttasvæðum sem lýsa gjarnan inn í íbúðarhús. Þá skiptir miklu máli hvernig vinkillinn er, ef svo má segja, inn á viðkomandi völl, að hann sé ekki of víður og trufli einfaldlega hversu dimmt eða bjart fólk kýs að hafa inni hjá sér. Allt er þetta samspil.

Ég tek því vel og mun skoða það alveg á næstu dögum að setja saman lítinn hóp til að skoða þetta betur. Ég held að það gildi einu hvort það verður að frumkvæði hv. þingmanns með þingsályktunartillögu eða þá að framkvæmdarvaldið taki sig til og komi slíkum hóp saman því að markmiðið er eitt og hið sama og ég þakka enn fyrir góða umræðu.