140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

fjárframlög til veiða á ref og mink.

151. mál
[18:38]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir ágæt skoðanaskipti um þetta mál. Það er sannarlega eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson nefndi ekki bara tilfinningamál heldur ekki síður mikið hagsmunamál.

Svo ég svari snöggt og án hiks spurningu hv. fyrirspyrjanda um virðisaukaskattinn: Nei, ég mun ekki beita mér fyrir því að hann fari til sérstakra verkefna í þágu refaveiða. Menn fara hér mikinn í alls konar tölum og upplýsingum héðan og þaðan um mófugla sem hverfa og fuglasöng sem þagnar o.s.frv. Þetta hljómar mjög dramatískt. (Gripið fram í.) Mér finnst því mikilvægt að nefna það hér að það sem skiptir mestu máli varðandi náttúru Íslands og sérstaklega þann part hennar sem varðar lífríkið, bæði plöntur og dýr, (Gripið fram í: Á Mývatni.) er vöktun, þ.e. að við séum með skýra og greinargóða vöktun. Til að vöktunin sé fyrir hendi þurfum við að gera náttúruvernd hátt undir höfði í fjárlögum. Við þurfum að styrkja náttúruvernd alls staðar og þær stofnanir sem henni sinna, hvort sem það er Umhverfisstofnun, þjóðgarðar eða Náttúrufræðistofnun, því að á skýrum vísindalegum upplýsingum og vísindalegum grunni eigum við að byggja ákvarðanir okkar en ekki á sögusögnum.