140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

þátttaka Íslendinga á Ólympíuleikunum.

283. mál
[19:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er vel við hæfi að hefja þessar umræður um íþróttamál núna þegar Ísland hefur leik í Evrópukeppninni. Ég hefði kannski kosið að umræðunni væri lokið vegna þess að leikurinn er að hefjast en við verðum bara að sjá hann á plúsnum og vona að Íslendingum gangi allt í haginn gegn reyndar gríðarlega sterku liði Króata.

Þessi fyrirspurn mín lýtur að framlagi ríkisins eða stuðningi við íþróttafólk á Ólympíuleikunum sem haldnir verða í London á þessu ári. Ljóst er að þátttaka ÍSÍ verður viðamikil og kostnaðarsöm en ríkissjóður hefur líkt og gert er hjá öðrum þjóðum, flestum að minnsta kosti, ætíð styrkt þátttöku Íslands í Ólympíuleikunum.

Áætlaður kostnaður ÍSÍ, undirbúningur og þátttaka í leikunum miðað við undanfarna leika, er á bilinu 50–70 millj. kr. Í fjárlögum 2012 er gert ráð fyrir framlagi að upphæð 17,8 millj. kr. til Ólympíuleika og smáþjóðaleika, en það hafðist í gegn og því ber að halda til haga 10 millj. kr. hækkun vegna Ólympíuleikanna í London sem haldnir verða á þessu ári.

Ég hef reyndar svolitlar áhyggjur af gangi mála. Við erum langt á eftir öðrum þjóðum sem við viljum bera okkur saman við, t.d. Norðurlöndin. Til samanburðar má geta þess að Danir leggja til danska handknattleikssambandsins til undirbúnings fyrir Ólympíuleikana 1,4–1,5 millj. evra sem samsvarar um 240 millj. íslenskra króna á meðan afrekssjóður ÍSÍ styrkir HSÍ um 106 þúsund evrur eða um 17 millj. kr. Þetta er landsliðið sem við viljum keppa við og vinna en aðstöðumunur þessara tveggja liða er gríðarlega mikill.

Ég spyr því hæstv. menntamálaráðherra hvort nú sé ekki ráð að styrkja verulega það íþróttafólk sem mun leggja leið sína á Ólympíuleikana. Það er andlit okkar Íslendinga út á við. Það ber hróður Íslendinga víða og þegar vel gengur vill þjóðin eiga í því hvert bein. Það hefur skapast mikil umræða að undanförnu um bágborna stöðu afreksfólks okkar. Ég fylgi þeirri umræðu eftir í næstu fyrirspurn en mig langar til að ræða við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um hvað ríkið sjái fyrir sér varðandi Ólympíuleikana í ár.