140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

þátttaka Íslendinga á Ólympíuleikunum.

283. mál
[19:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á málinu þó að tímasetningin hefði kannski getað verið betri en það er rétt, við horfum bara á leikinn á plúsnum. Eins og hv. þingmaður nefndi sér Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands um undirbúning og þátttöku Íslendinga í Ólympíuleikum í samstarfi við sérsambönd viðkomandi íþróttagreina. Á þessari stundu er enn ekki ljóst hversu margir munu ávinna sér rétt til þátttöku á leikunum. Á síðustu leikum voru íslenskir keppendur 27 og auðvitað vonum við að fjöldinn geti orðið svipaður í Lundúnum í sumar. Keppendum fylgja þjálfarar, fararstjórar og annað aðstoðarfólk. Fjöldinn getur því farið upp í 50 manns ef allt er talið og keppendur hafa möguleika á að vinna sér þátttökurétt allt fram í júní. Raunar hefur inntökumörkunum og lágmörkunum og reglum í kringum þau víða verið breytt, til að mynda hvað varðar þátttöku í sundi svo dæmi sé tekið. Það er því ekki eitt lágmark lengur heldur nokkur stig í þeim efnum. Hér hefur handboltalandsliðið borist í tal og að sjálfsögðu eigum við eftir að sjá hvort það kemst áfram á leikana en það hefur auðvitað töluverð áhrif á þann fjölda sem tekur þátt í leikunum.

Hvað varðar fjármögnun undirbúnings þá er hann fjármagnaður fyrst og fremst af rekstrarfé Íþrótta- og Ólympíusambandsins og lýtur að umgjörð íþróttafólksins í aðdraganda leikanna og að kostnaði við sjálfa leikana. Hingað til hafa verið veitt tímabundin framlög af fjárlögum sem ætluð hafa verið til ólympískra verkefna. Á árinu 2011 var veitt 5 millj. kr. tímabundið framlag svokallað og í ár náðist fram 10 millj. kr. framlag, eins og hv. þingmaður nefndi, að tillögu okkar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Ég bind raunar vonir við að þetta framlag verði varanlegt. Ég nefni það hér því að ég þykist vita að hv. þingmaður sitji í fjárlaganefnd. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta framlag verði gert varanlegt því að vetrarólympíuleikar og sumarólympíuleikar eru á fjögurra ára fresti og síðan eru að sjálfsögðu smáþjóðaleikar, Ólympíuhátíð æskunnar og fleiri ólympísk verkefni sem flokkast þarna undir. Þetta eru því á engan hátt tímabundin verkefni þannig að ég nefni það hér.

Undirbúningur íþróttafólksins fer að mestu leyti fram hjá sérsambandi viðkomandi íþróttagreina. Þau geta sótt um styrki í afrekssjóð, eins og hv. þingmaður kom inn á, vegna verkefna og undirbúnings. Þar eru veittir A-, B- og C-styrkir vegna kostnaðar við verkefni afreksfólksins og sá hluti er fjármagnaður af framlagi ríkisins og Íþróttasambandsins til afrekssjóðs. Að auki eru sjö íþróttamenn á einstaklingsstyrkjum svokölluðum í gegnum ÍSÍ og sérsambönd sín hjá alþjóða Ólympíusamhjálpinni fram að leikum auk A-liðs karla í handknattleik og væntanlega munu flestir í þeim hópi tryggja sér þátttökurétt á leikunum í Lundúnum. Þessi styrkur frá Ólympíusamhjálpinni nemur um 1.000 bandaríkjadölum á mánuði fram að leikum fyrir undirbúning einstaklinga. Í allt hlaut Handknattleikssamband Íslands 100 þúsund bandaríkjadali vegna tveggja ára undirbúnings fyrir leikana. Þeir eru greiddir af framlagi alþjóða Ólympíusamhjálparinnar í afrekssjóð en framlag þeirra var um 16 millj. kr. árið 2010.

Það er alveg rétt að afrekssjóð þarf að efla þrátt fyrir að sú tillaga hafi verið samþykkt sem ég fagna líka að efla hann um 10 millj. kr. Ég veit við ræðum hann nánar á eftir í annarri fyrirspurn frá hv. þingmanni. Af því að hv. þingmaður nefndi og bar saman stöðu mála á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum þá er áhugavert að skoða hana. Það er rétt að ef við lítum á stöðuna í ár og nokkur ár aftur í tímann þá leggur íslenska ríkið heldur minna til íþróttamála en ríkin annars staðar á Norðurlöndum svo dæmi sé tekið á meðan sveitarfélög hafa verið heldur atkvæðameiri þannig að þegar við berum þetta saman er heildarstuðningur hins opinbera í raun meiri. En það sem þarf þá að skoða er að sveitarfélögin hafa fyrst og fremst verið að leggja fé í íþróttamannvirki og þar inni eru að sjálfsögðu ýmis íþróttamannvirki sem má deila um sem nýtast auðvitað öllum almenningi. Ég nefni sem dæmi sundlaugar, augljóst dæmi.

Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta þurfum við að greina nánar. Síðan styðst íþróttahreyfingin alls staðar á Norðurlöndum líka við tekjur af lottói líkt og hér á landi. Það er að sjálfsögðu meira undir í því en það er mjög mikilvægt að halda því að þær tekjur renni áfram til íþróttahreyfingarinnar.