140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

þátttaka Íslendinga á Ólympíuleikunum.

283. mál
[19:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að fagna sérstaklega því sem hæstv. ráðherra sagði í lokin að það þarf að verja þann tekjustofn sem lottóið er gagnvart íþróttahreyfingunni. Það er mikilvægt.

Ég vil líka taka undir það sem kom fram bæði hjá hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra sem er sá skilningur sem þarf að vera til staðar, og er svo mikilvægur og er því miður ekkert allt of algengur, á því að byggja upp til lengri tíma öflugt afreksstarf. Það er ekki heldur þannig að ekki hafi verið komið til móts við íþróttahreyfinguna í gegnum tíðina. Gerðir hafa verið stórir samningar eins og um ferðasjóðinn, menn forgangsröðuðu í þágu ferðasjóðsins og síðan forgangsröðuðu menn í þágu sérsambandanna. Þessu þarf að halda áfram. Ég hvet ráðherra til að nýta þennan stuðning sem ég vil meina að sé þverpólitískur til að byggja til lengri tíma, ekki bara fram yfir kosningar eða til skemmri tíma heldur til lengri tíma og fara í öflugt samstarf við uppbyggingu á afreksíþróttum fyrir fólkið okkar þannig að það þurfi ekki núna þegar ólympíuárinu er lokið að koma með betlistaf í hendi enn og aftur til ríkisvaldsins.