140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

Vetraríþróttamiðstöð Íslands á Akureyri.

286. mál
[19:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Til allrar hamingju hefur snjóað mikið á Akureyri undanfarin ár. Það hefur gert það að verkum að fólk hefur flykkst þangað á skíði alls staðar af landinu og ekki aðeins Íslendingar heldur hafa Færeyingar verið með beint flug milli Íslands og Færeyja og nokkur hundruð manns komið þaðan og farið á skíði á Akureyri. Þarna eru gríðarlega miklir möguleikar að mínu mati og ekki bara í ferðamennsku heldur líka hvað atvinnumöguleika snertir. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að Vetraríþróttamiðstöðin og skíðasvæðið hafa leitt það af sér að fjölmörg fyrirtæki sem hefðu jafnvel farið á hausinn vegna lítillar aðsóknar yfir vetrarmánuðina náðu að halda sjó í janúar, febrúar og mars sem er frekar dauður tími.

Það komu engin framlög til Vetraríþróttamiðstöðvarinnar, þ.e. í gegnum uppbyggingarsamninginn, á árunum 2009, 2010 og 2011. Settar voru um 2,5 milljónir í reksturinn, framlag til að greiða einum starfsmanni. Akureyrarbær hefur lagt í verkefnið 2/3 fjárins á móti 1/3 frá ríkinu.

Mér er kunnugt um að Akureyrarbær fundaði með ráðuneytinu í haust. Þar voru lögð fram drög að upphæðum og forgangsröðun og skiptingu á milli ríkis og bæjarins. Mig langar því til að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra: Hver er staðan á þessu verkefni? Hver er staðan innan ráðuneytisins? Stendur til að gera þennan samning, sem ég tel afar brýnan?

Vert er að geta þess að þetta hefur leitt til þess að hægt var að ráðast í uppbyggingu á skautahöll á Akureyri og Fjarkann svokallaða, sem er stór og mikil stólalyfta sem var bylting í skíðaiðkun uppi í Hlíðarfjalli. Allt þetta varð að veruleika vegna þessara framlaga, þessa samnings milli Akureyrarbæjar og ríkisins. Svo má líka geta þess að þetta virkar allt saman, mörg önnur skíðasvæði í kringum Akureyri og á Norður- og Austurlandi njóta góðs af auknum ferðamannastraumi. (Forseti hringir.) En spurning mín er komin fram og væri ágætt að heyra í mennta- og menningarmálaráðherra um þetta.