140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

viðræður við ESB um sjávarútvegsmál.

[13:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi viðræðurnar um þessa tvo kafla er í hvorugu tilvikinu lokið endanlegri mótun samningsafstöðu. Í tilviki landbúnaðarins stendur reyndar svo á að þar voru sett inn opnunarskilyrði gagnvart tiltekinni áætlanagerð sem þyrfti að vera lengra á veg komin áður en eiginlegar samningaviðræður gætu hafist um það mál og í tilviki sjávarútvegsins er sú vinna í mótun. Áhyggjur af því sem kunni að verða uppi í sjálfri samningsgerðinni eru að því leyti ótímabærar í þessum tveimur tilvikum að hún er ekki hafin. Reyndar er ekki endanlega búið að loka því af okkar hálfu hvernig þau mál verða lögð upp.

Í báðum tilvikum er okkur ekki mikill vandi á höndum að skilgreina grundvallarhagsmuni okkar. Við höfum annars vegar um það skýra leiðsögn úr þinglegri umfjöllun um málið og hins vegar held ég að við þekkjum öll vel, ég tala nú ekki um á sviði sjávarútvegsins, þau stóru og brýnu hagsmunamál sem við viljum standa vörð um. Ég sé ekki fyrir mér að ég mæli með því að þeim kafla verði lokað, þaðan af síður (Forseti hringir.) að málið í heild verði samþykkt, ef óásættanlegur frágangur er í boði á þeim málum hvað varðar mikilvægasta undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn.