140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

tollvernd landbúnaðarvara og IPA-styrkir.

[13:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að eyða þessum mínútum í að ræða ályktun sem kom úr Norðvesturkjördæmi nýverið, í dag eða í gær, um að hæstv. ráðherra ætti að íhuga stöðu sína. Ég átta mig ekki alveg á því hvort það snýr að því að hæstv. ráðherra situr enn í sæti fjármálaráðherra í salnum eða er um einhverja aðra stöðu. Hins vegar er ljóst að það er einhver órói í kringum stöðu hæstv. ráðherra.

Mig langar að spyrja ráðherrann út í það hvort einhver breyting verði á umfjöllun og efnislegri afstöðu til tollverndar í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu eftir að nýr ráðherra hefur tekið þar við völdum. Forveri hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra var mjög ákveðinn og harður í að tollverndin skyldi halda og mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver breyting verði á þeirri stefnu eða hvort ráðherrann hyggist halda á lofti sömu áherslum og forveri hans gerði varðandi tollverndina.

Einnig langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver breyting verði á afstöðu til svokallaðra IPA-styrkja í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Eins og frægt er og kunnugt hafnaði Matís til dæmis slíkum styrkjum. Mun hæstv. ráðherra einnig fylgja þeirri stefnu sem var mótuð í ráðuneytinu um þessa svokölluðu IPA-styrki?

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fá á hreint hvort við munum sjá mikla stefnubreytingu í þessum stóru málum þar sem það er alkunna og vitað að hæstv. fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hafði það sem sitt helsta markmið, held ég í þingi sem og í ráðuneytinu, að vanda mjög til verka og gæta hagsmuna Íslands varðandi landbúnaðar- og sjávarútvegsmál þegar kom að Evrópusambandinu. Því hljótum við að spyrja: Mun hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra fylgja þeirri vinnu og þeirri stefnu sem þar var lögð? Ég spyr sérstaklega um tollverndina og IPA-styrkina.