140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

tollvernd landbúnaðarvara og IPA-styrkir.

[13:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi tollverndarmál landbúnaðarins er kannski rétt að nota tækifærið og segja frá því að þar er í undirbúningi frumvarp sem snýr að því að mæta athugasemdum umboðsmanns Alþingis um núverandi fyrirkomulag mála, en ég tek það ekki svo að hv. þingmaður sé að spyrja um það.

Varðandi grundvallarhagsmuni landbúnaðarins vísa ég til þess sem ég áður sagði, það er ágætisleiðsögn að finna í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar um það sem þar er mikilvægt, hvernig standa þurfi að málum og hvað þurfi að tryggja í viðræðum um landbúnað. Það er að sjálfsögðu staða okkar innlendu framleiðslu, fæðuöryggi, heilbrigði dýrastofna, að verja bann við innflutningi lifandi dýra og fleira sem við þekkjum, sem og það að Ísland hafi á einhverjum grunni, hvort sem það væri mögulega í formi tollverndar eða með öðrum umbúnaði, rétt til að styðja við landbúnað sinn með sambærilegum hætti og við höfum heimildir til að gera í dag. Ígildi þess stuðnings er eitt af samningsmarkmiðunum. Ég hvet hv. þingmann til að lesa sér betur til um hvernig fjallað er um þetta í þessari leiðsögn sem stuðst er við. Það er stefnan sem farið er eftir í öllum ráðuneytum, var gert í tíð forvera míns og verður gert í minni tíð. Við förum að þeirri opinberu stefnu sem hefur verið mörkuð í þessum efnum og styðjumst þar sérstaklega við leiðsögn þinglegrar umfjöllunar um málið.

Varðandi IPA-styrkina hafa stjórnarflokkarnir komið sér saman um vinnulag í þeim efnum, í hvaða tilvikum er tekið við styrkjum. Við teljum ásættanlegt að taka við styrkjum, hvort sem það eru TAIEX-styrkir eða IPA-styrkir til verkefna eins og þýðinga, til verkefna sem styðja við viðræðuferlið og búa okkur betur undir það að ná þar árangri, en við höfum ekki viljað taka við styrkjum sem væru gagngert í því eina skyni að undirbúa breytingar hér á stofnunum eða regluverki sem ekki væri ástæða til að ráðast í ef ekki yrði af aðild. Þar höfum við dregið mörkin og við vinnum samkvæmt því.