140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

tollvernd landbúnaðarvara og IPA-styrkir.

[13:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi deilistofna og önnur stærstu hagsmunamál sjávarútvegsins hafa menn auðvitað rætt um að til að eitthvert samkomulag í þeim efnum gæti verið ásættanlegt fyrir okkur Íslendinga yrði íslenska fiskveiðistjórnarsvæðið að fást viðurkennt sem sjálfstætt fiskveiðistjórnarsvæði þar sem við héldum eins ríkulegum réttindum og mögulegt er til að fara með stjórn mála nokkurn veginn í samræmi við það sem við höfum gert þannig að við gætum hér verið með okkar sjálfstæðu fiskveiðistjórn, úthlutun veiðiréttinda og annað í þeim dúr.

Varðandi deilistofnana verður að gera þá játningu hér, frú forseti, að það er eiginlega í því eina tilviki sem ég var ekki alls kostar sáttur við þá leiðsögn sem kom frá meiri hluta utanríkismálanefndar Alþingis. Ég hefði þar viljað sjá sterkara orðalag, einfaldlega vegna þess að að mínu mati eru það einhver stærstu og brýnustu hagsmunamálin sem ráðast til lykta í þeim fjölmörgu deilistofnum sem við deilum með öðrum að einhverju leyti utan fiskveiðilandhelginnar og er enn ósamið um í vissum tilvikum. Er þar nærtækt að nefna makrílinn. Við sjáum náttúrlega (Forseti hringir.) hvílíkt gríðarlegt hagsmunamál það er fyrir Ísland að geta varið hagsmuni sína þar þegar nýr stofn bætist inn í okkar efnahagslögsögu sem gefur vertíðir upp á 25–30 milljarða kr. (Forseti hringir.) Það að sækja okkur sanngjarna og réttláta hlutdeild í slíkum tilvikum í þannig deilistofnum er auðvitað eitt af stóru hagsmunamálunum (Forseti hringir.) sem við þurfum að standa fast á.