140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

fyrirkomulag matvælaeftirlits.

[14:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég ætla að ræða í kjölfar fundar sem við áttum í atvinnuveganefnd í morgun um kadmíum og atvinnuiðnaðarsalt. Á köflum áðan í ræðu hv. þm. Þórs Saaris kannaðist ég ekki við að hafa verið á þeim fundi sem hann lýsti.

Þar kom hins vegar fram að auðvitað liggur ábyrgðin hjá innflutningsaðilunum, heildsölum, smásölum og framleiðendum. Engu að síður er ljóst að klúður eftirlitsaðilanna er mikið og það er spurning hvernig á að leysa úr því. Það hefur líka komið í ljós að það er mat allra sérfræðinga sem að þessu hafa komið að heilbrigðishættan af þessu sé engin, afar lítil, sennilega engin í kadmíum-tilvikinu og vafasamt að hún sé nokkur í tilfelli þessa iðnaðarsalts.

Eins og ég sagði er klúðrið engu að síður verulegt í eftirlitinu og á því ber hæstv. ráðherra ábyrgð. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Til hvaða raunverulegra ráða hyggjast hann og ráðuneytið grípa? Í kjölfarið á nýjum matvælalögum og uppskiptingu á eftirliti hefur sem sagt uppskipting á milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna orðið allnokkur. Þessi umræða hefur margsinnis komið fram. Mig langar að spyrja hvort það hafi komið til greina hjá ráðuneytinu og ráðherra að breyta þessu eftirliti þannig að ríkisstofnanirnar yrðu stjórnsýslustofnanir og eftirlitið fært út til sveitarfélaganna, til landsbyggðarinnar. Það yrði ódýrara í svona stóru landi, það yrði ekki eins miðlægt. Það yrðu einhverjir gallar við það, en til að mynda eru heilbrigðissvæðin tíu en héraðsdýralæknasvæðin eru sex. Þetta mundi styrkja eftirlitið á landsbyggðinni og hugsanlega mundi þetta skýra ábyrgðarsviðið annars vegar á milli stjórnsýslunnar og hins vegar hinna sem hafa eftirlitið (Forseti hringir.) með höndum. Til einhverra ráða verður að grípa því að þetta klúður getur ekki haldið áfram svona.