140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[14:34]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki beint komin hingað til að andmæla hv. þingmanni, varaformanni velferðarnefndar, heldur þvert á móti til þess að lýsa mig mjög sammála því nefndaráliti sem hér hefur verið kynnt og þeim megináherslum sem koma fram í því. Sérstaklega fagna ég þeirri ríku áherslu í álitinu sem lögð er á sjálfsákvörðunarrétt hinnar verðandi staðgöngumóður og þá skýlausu kröfu að ekkert geti tekið rétt konu til að ráða yfir eigin líkama. Það verður ekki skilið öðruvísi en svo að þar með verði ekki með neinu móti hægt að neyða konu til að afhenda barn eða hindra það að henni geti snúist hugur á einhverjum tímapunkti. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt atriði í allri þessari umræðu.

En eins og kom réttilega fram hjá hv. þingmanni er með þessu máli verið að heimila frumvarpssmíð og leggja ákveðnar grunnlínur fyrir þá vinnu sem er mjög mikilvæg, að Alþingi Íslendinga hafi skoðun á og setji eitthvert gólf fyrir þau siðferðilegu álitamál sem þarf að taka afstöðu til. Við erum sem betur fer ekki að ræða fullbúið frumvarp, enda er þessi umræða það viðkvæm og vandmeðfarin að við þurfum að stíga mjög varlega til jarðar og huga vel að hverju einasta skrefi sem við stígum í þessu máli.

Ef þetta mál fer hér í gegn eins og það er lagt upp treysti ég Alþingi Íslendinga til þess að taka efnislega umræðu um innihald þess frumvarps sem væntanlega lítur þá dagsins ljós með öllum þeim álitamálum sem við þurfum síðan að taka afstöðu til.