140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir jákvæð viðbrögð við nefndaráliti okkar. Mig langar einmitt í framhaldi af vangaveltum hennar að koma á framfæri þeirri skoðun minni að það skipti mjög miklu máli að við ræðum þessi mál. Ég veit að þessi umræða er erfið fyrir marga og sumum finnst við engan veginn tilbúin að gera það en samfélagið, þ.e. tæknin og foreldrarnir, er komið það langt að við verðum að taka umræðuna upp.

Burt séð frá hvaða skoðun við höfum á staðgöngumæðrun sem slíkri held ég að með því að ræða málið og þá tillögu sem er komin fram leggi Alþingi Íslendinga sitt af mörkum til þessarar umræðu. Það kemur fram með mjög ábyrga afstöðu þar sem tekið er á mjög erfiðum málum. Framlag okkar til umræðunnar skiptir máli og það að við berum fulla virðingu fyrir skoðunum hver annars, þær eru ólíkar og snerta djúpar tilfinningar hjá mörgum og í raun og veru hugmyndina um lífið sjálft og grunn þess.

Ég efast ekki um að umræðan út af fyrir sig verði vönduð og góð í dag. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að þessi umræða fari nokkuð átakalítið fram og án mikilla gífuryrða.