140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[14:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhuga hennar og aðkomu að þessu máli. Hún hefur tekið þátt í öllum þeim umræðum, held ég, sem um þetta mál hafa verið hér á þinginu og þó að við séum ekki sammála fagna ég því að það sé rætt frá öllum sjónarmiðum.

Það eru fjölmörg atriði í minnihlutaáliti þingmannsins sem ég er ósammála, eins og gefur að skilja. Ég er sammála því að munur er á — ég lýsi mig andvíga breytingartillögu hv. þingmanns — tillögunni eins og hún er lögð fram, um að velferðarráðherra verði falið að semja frumvarp, eða því að velferðarráðherra skipi hóp til að skoða hluti sem suma er búið að skoða og aðra sem munu verða skoðaðir í þeim hópi sem okkar upprunalega tillaga gengur út á.

Þingmaðurinn segir að frá því að starfshópur heilbrigðisráðherra, sem lagðist gegn staðgöngumæðrun, lauk störfum hafi ekkert breyst. Það er fráleitt að halda því fram. Á þeim 18 mánuðum, ef mér reiknast rétt til, sem liðið hafa hafa a.m.k. 15 málþing verið haldin um staðgöngumæðrun. Það hefur verið rætt ítarlega hér á Alþingi, það hefur verið rætt í öllum fjölmiðlum, bæði í ljósvakamiðlum og í dagblöðum. Almenn umræða í samfélaginu er mun meiri en hún var þegar þetta álit lá fyrir. Erlendir sérfræðingar hafa komið hingað og þar nefni ég sérstaklega Karen Busby, lögfræðing, sérfræðing í mannréttindamálum og femínista. Hún hefur tekið saman 40 rannsóknir um áhrif staðgöngumæðrunar á barnið, foreldrana, staðgöngumóðurina, þær rannsóknir liggja allar fyrir. (Forseti hringir.)

Það sem verið er að leggja til, herra forseti, er að öll þau álitamál, og þau eru sannarlega nokkur, verði tekin til skoðunar en að við höfum (Forseti hringir.) kjark til að álykta um að semja frumvarp (Forseti hringir.) sem Alþingi hefur síðan allt vald (Forseti hringir.) til að hafa áhrif á.