140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi ekki sagt, og sannarlega meinti ég það ekki, að konur sem tækju að sér staðgöngumæðrun væru að því á annarlegum forsendum. (Gripið fram í.) Ég er hins vegar hrædd um, og ég hef lesið um það, að því miður geti það orðið svo að konur sem eru minni máttar, og hafa orðið það af einhverjum ástæðum, lendi frekar í þessu hlutverki, ég held því nú fram að þetta sé svolítið hlutverk að lenda í.

Ef kona vill ganga með barn fyrir systur sína, og mér er sagt að það tíðkist á Íslandi, þá bara getur hún haldið því áfram. En að leiða það í lagaramma, það er einmitt það sem ég sagði áðan: Það er eitt að leiða eitthvað í lagaramma og annað að eitthvað tíðkist og gangi bara vel. Um leið og þú ert búin að leiða eitthvað í lagaramma beitirðu fólk ákveðnum þrýstingi. Þessu vildi ég koma að.

Varðandi það sem ég sagði um Bretland þá er það tengt því að fólk fari til útlanda og noti staðgöngumæðrun sem þar er þá í hagnaðarskyni. Það eru breskir dómstólar sem kveða upp úr um ríkisborgararétt fólks, t.d. eins og við lentum í hér á þinginu með litla barnið sem var að koma frá Indlandi, og glíma nú við það hvað þeir eigi að gera þegar par kemur (Forseti hringir.) með barn sem er fætt þar sem staðgöngumæðrun er leyfð í hagnaðarskyni. (Gripið fram í.) Ég er að segja: Við komum ekki með þessu í veg fyrir að fólk héðan leiti til útlanda.