140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég verð að segja að ég tel að það sé nú ekki svo ýkja langt á milli okkar.

Varðandi þau atriði sem þingmaðurinn nefnir í niðurlagi nefndarálits síns og vík ég sérstaklega að því síðasta sem þingmaðurinn talaði um, þ.e. hvort starfshópurinn ætti ekki að skoða hvort staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni yrði gerð ólögleg, þá er það einmitt nefnt í nefndaráliti meiri hlutans á bls. 3. Þar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur mikilvægt að við vinnu sína skoði starfshópurinn m.a. hvort lögfesta eigi reglur sem fela í sér að staðgöngumæðrun gegn greiðslu verði ólögleg og hvort viðurlög skuli vera við brotum á lögum þar um.“

Þetta er eitt af þeim atriðum sem verða skoðuð verði tillagan samþykkt. Ég get tekið undir það sem þingmaðurinn segir, að 2. minni hluti telji mikilvægt að allt þetta verði skoðað mjög vel. Það er nákvæmlega það sem við leggjum til. Það vill enginn gera þetta illa. Það vill enginn að staðgöngumæðrun verði leyfð hér og að það gangi illa og verði til tjóns.

Þess vegna er eini munurinn á okkar afstöðu sá, eftir því sem mér sýnist, hvort þessum starfshópi verði falið að skrifa frumvarp eða ekki. Ég tel mjög mikilvægt að einmitt til að upphugsa ferlið allt saman verði frumvarp smíðað vegna þess að þá er hægt að sjá hvernig, að lokinni allri þessari skoðun, starfshópurinn skoðar öll þau álitamál sem við höfum verið að ræða hérna. Síðan verði frumvarpið samið og komi til þingsins. Þingið hefur það allt í hendi sér og getur (Forseti hringir.) rætt það fram og til baka þannig að ég held að þetta sé það sem skilur á milli. Svo ætla ég aðeins að fjalla um Noreg í seinna andsvari mínu.