140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var eitt af því sem ég taldi mjög mikilvægt í vinnu nefndarinnar. Ég var mjög sátt við það að teknar voru upp í meirihlutaálitinu einmitt þær áherslur á að ákveðin viðurlög væru. Það sem stoppaði mig hins vegar við lestur nefndarálits meiri hlutans, þegar ég var enn tvístígandi í því hvað ég ætti að gera, var þessi tilfinning og áhersla sem kom fram í álitinu um að heimila ætti staðgöngumæðrun. Eins og ég nefndi í ræðu minni tel ég að það ætti að vera eitt af því sem hópnum væri falið, að komast að þeirri niðurstöðu að banna staðgöngumæðrun. Punktur. Þannig að það væru þeir möguleikar sem væru uppi á borðinu fyrir þennan starfshóp. Frumvarp sem kæmi þá frá viðkomandi hóp, hvort sem það yrði lagt fram á Alþingi svo fljótt sem auðið er eða ekki af velferðarráðherra eða einhverjum öðrum, gæti þess vegna verið þannig að það stæði einfaldlega í 1. mgr.: Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni eða hagnaðarskyni er ólögleg á Íslandi. Punktur. Eða bönnuð. Hún væri ekki heimiluð.

Ég held að það sé einmitt ástæðan fyrir því að ég var ekki tilbúin að taka það skref sem kemur fram í áliti meiri hluta velferðarnefndar og í þingsályktunartillögunni sjálfri þar sem verið er að leggja til að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Eins og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir veit og við höfum rætt um hefur þetta ekki verið mér auðvelt. Það hefur ekki verið einfalt að ná utan um málið. Mér finnst þetta erfitt mál. Þetta er viðkvæmt mál, þetta er siðferðislegt mál. Þetta er mál sem snýr líka svo mikið að okkur sem einstaklingum frekar en að það sé endilega pólitísk stefna.