140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:57]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum í dag þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun og þetta er annað þingið þar sem við ræðum tillögu um staðgöngumæðrun. Tillagan sem var lögð fram fyrir ári síðan, á síðasta þingi, og var unnin í þáverandi heilbrigðisnefnd náði ekki afgreiðslu. Sú þingsályktunartillaga sem nú liggur fyrir og við ræðum í dag tekur mið af þeim breytingum sem voru gerðar á fyrri þingsályktunartillögu. Við þá tillögu komu fjölmargar umsagnir og flestar þeirra voru neikvæðar eða í þeim bent á að vinna þyrfti málið betur og gefa umræðunni meiri tíma og þroska. Innan þessa ramma voru flestar umsagnirnar. Jákvæðar umsagnir þar sem hvatt var til þess að þingsályktunartillagan yrði afgreidd og samþykkt voru fljótt á litið flestar frá samtökum fólks sem stríðir við barnleysi eða frá sérfræðingum á sviði tæknifrjóvgunar. Það má skipta umsögnunum þannig í tvo hópa. Langflestir sem skiluðu inn umsögnum, hvort sem þeir störfuðu innan heilbrigðisþjónustunnar eða á vísindasviðum háskólans eða hjá samtökum eins og Rauða krossinum, þjóðmálanefnd kirkjunnar, hjá umboðsmanni barna og fleiri, það má nefna fjöldann allan í viðbót, vildu að farið yrði með mikilli gát.

Ég vil fá að vitna til einnar umsagnar frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, með leyfi hæstv. forseta. Í henni segir:

„Verði þessi þjónusta skilgreind sem heilbrigðisþjónusta mun hún að öllum líkindum standa til boða öðrum konum á Evrópska efnahagssvæðinu. […] Margt bendir til að ástæða þessa mikla flýtis sé sú að nokkur pör bíði þess að geta nýtt sér þetta úrræði hið fyrsta. Ef það er mat þingheims að samfélagið eigi að bregðast við vanda þessara einstaklinga leggur Siðfræðistofnun til að skoðaðar verði aðrar leiðir til þess en að staðgöngumæðrun verði heimiluð.“

Hæstv. forseti. Ástæða þess að ég les upp þennan bút úr umsögn Siðfræðistofnunar er einmitt sú að allt frá því að málið kom hér fyrst fram hefur verið umtalsverður þrýstingur á að við afgreiddum málið. Ég tel að á fyrri stigum hafi málið hreinlega borið af því nokkurn skaða, en í góðri vinnslu á síðasta þingi var litið til fjölmargra athugasemda og þær teknar inn í þá þingsályktunartillögu sem nú er til umræðu. Það ber að virða að það hefur verið gert, en ég er eftir sem áður þeirrar skoðunar að við séum ekki á réttri leið.

Ég hafna því að þegar vísað er til vinnu starfshóps þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem skipaði sérfræðinganefnd til að fara yfir mál um staðgöngumæðrun og skoða allar hliðar þess, hvort breyta ætti lögum eða setja sérlög um tæknifrjóvgun, sé talað um að sú sérfræðinefnd hafi skilað lokaskýrslu. Þetta var ekki lokaskýrsla, þetta var áfangaskýrsla þar sem bent var á fjölmörg atriði sem þyrfti að skoða betur áður en ákvörðun væri tekin. Því var niðurstaða þeirrar nefndar að ekki væri tímabært að setja um þetta lög. Þeir sem styðja að unnið sé vel að þessu máli og vilja ekki að því sé sópað undir teppið heldur að allar hliðar þess verði skoðaðar, gera það með það í huga að taka upp þráðinn þar sem áfangaskýrslunni lauk og fara í þá vinnu sem sérfræðihópurinn benti á að þyrfti að gera. Það kemur einnig fram í ábendingum meiri hluta velferðarnefndar sem fylgja þessari þingsályktunartillögu, að fara þurfi vel yfir fjölmörg atriði áður en frumvarp verður lagt fram.

Því spyr ég: Því ekki að fara í þá vinnu og sjá hvar við stöndum þá með niðurstöðuna? Af hverju að fara fram núna með þingsályktunartillögu sem lýsir þeim vilja þingsins að setja skuli löggjöf sem heimili staðgöngumæðrun? Það gæti verið að eftir áframhaldandi skoðun og vinnu við málið að niðurstaða þess starfshóps og ráðuneytis yrði að betra væri að fara í ættleiðingarferlið og fara að dæmi Norðmanna að auðvelda fólki að ættleiða börn. Mér finnst óvarlegt og ekki rétt að ákveða að skoða málið og ákveða fyrir fram nákvæmlega í hvaða farveg það á að fara.

Ég tel að ef staðgöngumæðrun yrði heimiluð, þrátt fyrir að fram komi í þingsályktunartillögunni að búið sé að þrengja mjög þau skilyrði sem þyrfti að uppfylla til að geta nýtt sér hana, mundum við með því varpa allt öðru ljósi á þessa gjörð staðgöngumæðra. Við mundum gera hana að ákveðnu normi, í stað þess að í dag er staðgöngumæðrun bönnuð. Það sem gert er í velgjörðarskyni í dag og er leyft, því að það má gefa börn og það má ættleiða börn, er gert undir slíkum þrýstingi sem lagaumhverfið í dag býður upp á. En ef staðgöngumæðrun verður normið verður til annars konar þrýstingur á systur, vinafólk eða aðra til að bregðast við. Auðvitað hafa ættingjar samkennd með þeim sem eiga við barnleysi að stríða og skilja vel þjáningu og aðstöðu þess fólks sem þráir ekkert annað en að eignast börn en getur það ekki. Ef þetta verður leyft verður erfiðara að komast undan slíkum þrýstingi, vegna þess að það verður til ákveðin meðvirkni og þrýstingur, bæði á systur og vinkonur. Það kemur hér fram að talið er að eitt til fimm pör muni í dag geta nýtt sér þessa þjónustu, en sá fjöldi kemur fram út frá þeirri lagaumgjörð sem er til staðar í dag. Við getum ekki fullyrt að eftirspurnin verði ekki meiri ef heimildin verður opnuð og þetta gert að normi.

Við þurfum líka að huga vel að einu þegar við berum okkur saman við önnur lönd, en það er fámennið á Íslandi. Við getum ekki falið okkur, það er erfiðara að leyna því eða fara hljótt með það að ganga með barn annarra og fjölskylduböndin á Íslandi eru sterk, þau eru náin. Það er erfiðara fyrir staðgöngumóður hér á landi en annars staðar að komast hjá því að umgangast það barn sem hún fæðir og erfiðara að vera í þeim umgengnishópi sem getur í raun og veru varið hana fyrir því áreiti sem hún getur orðið fyrir vegna þess að hafa gefið barnið en ekki alið það upp sem sitt eigið. Það gæti því verið erfitt fyrir okkur í fámenninu að bera stöðu mála hér saman við niðurstöður rannsókna í fjölmennari þjóðfélögum.

Síðan er oft talað um mannréttindi í þessu sambandi, að það séu mannréttindi fólks að eignast börn, að eiga barn. En það eru ekki mannréttindi að eiga barn. Okkur er líffræðilega gefið að fjölga okkur og konum að ganga með börn og fæða börn en það er ekki og mun ekki flokkast undir mannréttindi. Ef staðgöngumæðrun er heimiluð undir formerkjum mannréttinda er ekki hægt að neita öðrum — og þá vísa ég til samkynhneigðra karla — að notfæra sér þjónustu staðgöngumæðra því að þá er þetta mannréttindi allra, ekki eingöngu kvenna sem, eins og það er skilgreint hér, geta líffræðilega ekki alið barn eða gengið með barn. Ef litið er á þetta út frá mannréttindahugmyndafræðinni er um að ræða mannréttindi karla og kvenna og þá verður erfiðara að komast hjá því að veita samkynhneigðum karlmönnum sömu réttindi og heimila þeim nýta sér staðgöngumóður, og það er kannski allt í lagi.

Þarna stöldruðu Finnar við. Þeir höfðu heimilað með lögum staðgöngumæðrun en þegar þetta litla skref hafði verið tekið hófst þrýstingur á að útvíkka þann takmarkaða hóp sem ætti rétt á þessu úrræði og sagt að þetta væru mannréttindi og samkynhneigðir karlar ættu að geta nýtt sér þessa þjónustu rétt eins og samkynhneigðar konur. Þá drógu Finnar þessa löggjöf til baka. Þeir eru nú að skoða þetta allt upp á nýtt og það sem ég hef heyrt af þessum málum er að þeir séu að skoða heildarlöggjöfina og hvernig hægt sé að aðstoða barnlaust fólk sem ekki er hægt að aðstoða með þeirri tækni sem til er í dag.

Það er mikils um vert að horfa svo til staðgöngumóðurinnar sjálfrar, hennar réttinda og að ekki sé verið þröngva fram bindandi samning. Eins og þingsályktunartillagan lítur út í dag er ekki gert ráð fyrir bindandi samningi, staðgöngumóðir getur hætt við og haldið barni sínu. Þetta eru atriði sem þarf að skoða vel rétt eins og hvernig eigi að tryggja réttindi barnsins, hins ófædda barns. Þar þarf að fara vel yfir ættleiðingarlöggjöfina og skilgreiningu á móður; er það konan sem fæðir barnið eða konan sem elur barnið upp?

Við erum í dag að brjóta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur fram að það eru skilyrðislaus réttindi barns að þekkja kynforeldra sína. Við höfum gengið það langt í lögum um tæknifrjóvgun að við heimilum gjafasæði ónafngreindra karla þannig að börnin þekkja ekki kynföður sinn. Það er brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við heimiluðum þetta undir þeim formerkjum að betra væri að gera þetta hér á landi en að konur færu til Danmerkur eins og þá var nokkuð um — það getur vel verið að enn sé eitthvað um það í dag því að lítið er haldið utan um þessi mál. Það væri betra að konurnar gætu gengið að gjafabanka hér á landi og fengið nafnlaust gjafasæði, í staðinn fyrir að þurfa að fara til Danmerkur. Það hefur líka heyrst í umræðunni að betra sé að heimila staðgöngumæðrun hér á landi, við sem þjóð séum þá ekki að notfæra okkur eða nýta okkur þjónustu staðgöngumæðra eða fyrirtækja sem bjóða upp á staðgöngumæðrun erlendis. Indland hefur sérstaklega verið nefnt af því tilefni. En mun það einhverju breyta? Munu ekki einhver pör leita til Indlands eftir sem áður eða einhverra annarra landa þó svo að þessi þingsályktunartillaga leiddi til þess að samþykkt yrðu lög um að staðgöngumæðrun væri eingöngu heimiluð fyrir mjög þröngt skilgreindan hóp? Það er hugsanlegt að til væru barnlaus hjón sem féllu ekki undir þessa þröngu skilgreiningu og gætu þess vegna leitað til Indlands eða annarra landa eftir þessari þjónustu.

Ég held að við höfum hlaupið nokkuð á okkur, með fullri virðingu fyrir því litla barni sem við á Alþingi ákváðum að veita íslenskan ríkisborgararétt. Ég held að við hefðum þá átt að draga djúpt andann og skoða hvaða afleiðingar þetta gæti haft. Norðmenn bregðast ekki eins við, þeir setja ábyrgðina á hendur verðandi foreldra sem kjósa að leita staðgöngumæðra erlendis og ættleiðingarferlið er látið ganga eðlilega fyrir sig og væntanlegir foreldrar fá þessa þjónustu vitandi það að þeir verða að dveljast erlendis um einhvern tíma þar til eðlileg ættleiðing getur farið fram.

Samhliða þessu þarf líka að huga að því hvort ekki eigi að teljast ólöglegt og refsivert að nýta sér neyð kvenna sem eru margar hverjar þvingaðar til staðgöngumæðraframleiðslu, leyfist mér að segja. Þrátt fyrir það að Bretar heimili staðgöngumæðrun sækja Bretar eftir sem áður til Indlands í þessu skyni og þar er þetta spurning um krónur og aura. Ef par sér að það gæti verið ódýrara að sækja til Indlands eftir sem áður, gera margir það, það getur einnig verið að parið uppfylli ekki þau skilyrði sem Bretar setja. Það er því aldrei hægt að koma í veg fyrir að fólk sæki þessa þjónustu annað þó svo að við heimilum staðgöngumæðrun með svona þröngum ramma.

Ég tel að aldrei verði hægt að koma í veg fyrir staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni, eða tryggja að svo verði ekki. Það geta verið duldar greiðslur, hvort sem er í beinum peningum eða öðru til staðgöngumóðurinnar sem verða raunar þess valdandi eða hafa áhrif á það að kona er tilbúin til að ganga með barn fyrir aðra.

Það skiptir líka miklu máli hvernig við skilgreinum þessa þjónustu. Er þetta heilbrigðismál? Já, þetta er heilbrigðismál. Við veitum heilbrigðisþjónustu fyrir fæðandi konur, við veitum þjónustu á meðgöngunni og heilbrigðisþjónustu fyrir börnin. Hér er lagt til að þessi þjónusta við staðgöngumæðrun verði eingöngu innan hinnar opinberu þjónustu og væri hluti af því að ráða bót á ófrjósemi. En höfum við efni á því eða er rétt að taka þetta upp núna í forgangsröðun okkar í heilbrigðisþjónustunni ásamt þeim félagslegu réttindum sem þessir einstaklingar eiga skilið?

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, segja að þeir einstaklingar sem eiga við barnleysi að stríða (Forseti hringir.) eiga fulla samúð mína en ég tel ekki rétt að fara þessa leið og ekki tímabært (Forseti hringir.) að setja í dag löggjöf um staðgöngumæðrun.