140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir ágæta yfirferð yfir málið. Þetta eru mörg vandamál sem við erum að glíma við, þau eru siðfræðileg, þau eru efnahagsleg o.s.frv. En það var eitt sem stakk mig, ég hef reyndar nefnt það áður, hún sagði að við brytum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna af því að börn vissu ekki um kynforeldra sína og nefndi sem dæmi gjafasæði.

Nú er það svo að ég hygg að fáir karlmenn mundu vilja gefa sæði ef þeir væru meðvitaðir um það að eftir svona 20 ár kæmu 40 til 50 börn og bönkuðu upp á hjá þeim. Sennilega mundi enginn karlmaður gefa sæði með því skilyrði að börnin fengju að vita um nafn hans. Þá er það spurningin sem ég spurði í fyrri umr. líka: Hvort er betra að vera barn sem veit um kynforeldra en er ekki til eða vera barn sem er til og veit ekki um kynforeldra sína? Hvort er betra? Er lífið yfirleitt jákvætt ef maður lítur þannig á? Er betra að vera ekki barn ef þetta skilyrði er sett? Vegna þess að við það að þetta skilyrði er sett verða mörg börn ekki til. Þau börn sem getin eru með gjafasæði í dag yrðu ekki til og spurningin er hvort það sé gott fyrir barnið eða ekki að vera ekki til.

Síðan er spurningin um það sem við ræðum hér, með þessu sem við erum að ræða hér er verið að heimila að börn verði til, ekki satt? Ef við leyfum þetta ekki verða viss börn ekki til. Spurningin er sú: Er betra að vera ekki til með þeim skilyrðum sem við hér ræðum eða vera til og lúta þeim vandræðum, þeim siðferðilegu vandamálum sem við erum að ræða hérna? Mér finnst að barn sé jú alltaf barn þegar það er komið í heiminn og yfirleitt velkomið.