140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:29]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, barn er alltaf barn og flest eru velkomin í heiminn sem betur fer, alla vega í okkar heimshluta. Verði barn ekki til get ég ekki séð að það hafi einhverjar hugmyndir um hvernig það væri að vera ekki til. Þetta er hugmyndafræði sem ég tel að verði að vísa til þeirrar nefndar sem á að fjalla um málið áfram.

Hvað erum við að uppfylla með þessu? Erum við að uppfylla þarfir foreldranna, erum við að uppfylla þarfir barnsins, erum við að uppfylla þarfir staðgöngumóðurinnar? Fólk sem býr við barnleysi og getur ekki átt barn saman og getur ekki notfært sér þá tækniaðstoð sem til er í dag sem er mjög mikil, fjöldi barna hefur orðið til með þeirri tækni sem við heimilum í dag, eftir stendur þetta barnlausa fólk sem tæknin getur ekki hjálpað. Við erum að fara fram á það að uppfylla þarfir þess með því að leggja álag á annan. Við erum að biðja aðila um að ganga með og gefa frá sér, fæða af sér barn til að uppfylla þarfir annarra. Staðgöngumóðirin er vissulega orðin hýsill fyrir þarfir annars fólks en barnið verður örugglega í þessum tilfellum velkomið í heiminn og fær gott uppfóstur (Forseti hringir.) því að barnlausa parið óskar sér einskis heitar en að eignast barn.